Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 15:56:20 (3706)

2004-02-02 15:56:20# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mun nota ræðutíma minn til að reifa að nokkru sjónarmið mín til þeirra álitaefna sem hér eru uppi. Fái háttvirtur málshefjandi ekki nægjanlega glögga mynd eða góð svör við þeim spurningum sem hann hefur lagt fram í dag bendi ég honum á að leggja fram fyrirspurnir á því þinglega formi sem gert er ráð fyrir til að bera fram fyrirspurnir. Umræður utan dagskrár eru ekki til þess að ráðherrar svari röð af fyrirspurnum frá þingmönnum heldur til þess að menn geti rætt málin og reifað sjónarmið sín hvað þau varðar. Fyrirspurnatíminn er fyrir fyrirspurnir og sjálfsagt að svara þeim þar.

Hins vegar er ljóst, herra forseti, að meiri breytingar hafa orðið á íslensku atvinnulífi á undanförnum mánuðum og missirum en við höfum upplifað í mörg ár og jafnvel í áratugi. Angi þessara breytinga var salan á sjávarútvegsfyrirtækjum Brims sem fór fram fyrir ekki svo löngu síðan.

Það er rétt sem kom fram hjá háttvirtum málshefjanda að menn höfðu áhyggjur af atvinnuöryggi og rekstraröryggi þessara fyrirtækja meðan á því ferli stóð. Hins vegar hefur niðurstaðan sýnt að kannski var minni ástæða til að hafa áhyggjur af því sem kæmi í kjölfarið á sölu fyrirtækjanna. Staðan er reyndar sú að að því er best verður séð hefur atvinnuöryggi þeirra sem hjá þessum fyrirtækjum starfa á engan hátt raskast. Þeir sem þar hafa fjárfest virðast hafa langtímasjónarmið í fjárfestingum sínum og ætla sér að standa að rekstri fyrirtækjanna. Hér er um að ræða mjög traust fyrirtæki sem eiga sér langa sögu og eru í góðum rekstri. Þar af leiðandi er engin ástæða til að hafa áhyggjur af því að sá rekstur væri betur kominn á annan hátt eða einhvers staðar annars staðar en hann er í dag.

Ástæða er til að ætla að þessi fyrirtæki muni þróast í framtíðinni í takt við það sem gerist í sjávarútvegi innan lands og því sem gerist í sjávarútvegi erlendis, kannski ekki síst miðað við hvað gerist í sjávarútvegi erlendis miðað við þá erlendu samkeppni sem við höfum orðið vör við á undanförnum mánuðum.

Hins vegar er líka ljóst að eitt af því sem hafði afgerandi áhrif á það hvernig þessi kaup fóru fram eru þær takmarkanir sem eru á hámarkskvótaeign hjá einu fyrirtæki eða skyldum fyrirtækjum. Það má bæði sjá á því hverjir tóku þátt í þessum viðskiptum og buðu í fyrirtækin þegar það ferli fór fram hjá Landsbankanum. Eins er áberandi hverjir ekki tóku þátt í þessu ferli og hverjir buðu ekki.

Ljóst er að kaupverð fyrirtækjanna mun hafa áhrif á rekstur þeirra og mun gera mjög miklar kröfur til þeirra sem þeim rekstri stjórna um að reksturinn verði arðsamur. Hins vegar er ekki ástæða til að ætla að þessi fyrirtæki standi ekki undir þeirri kröfu og þeir sem hafa fjárfest fái ekki arð af eignum sínum á eðlilegan hátt og á eðlilegum tíma. Skylda stjórnvalda verður eftir sem áður að ganga þannig frá málum að hagstætt verði að fjárfesta í sjávarútvegi í framtíðinni sem hingað til. Ekki er að sjá af niðurstöðu þessa máls að menn séu feimnir við að fjárfesta í sjávarútvegi á Íslandi.

[16:00]

Ég hef hins vegar áhyggjur af því sem óbeint tengist þessu, að sjávarútvegsfyrirtæki hafa farið úr Kauphöllinni, og þá er ég ekki endilega að tala um fyrirtækin sem þarna voru til sölu heldur önnur fyrirtæki og þá er verið að hverfa frá fjármögnun í gegnum hlutabréfamarkaðinn í fjármögnun í gegnum einkafyrirtæki sem eru mjög skuldsett með lánum hjá bönkum. Þetta getur haft áhrif á þá hugsun sem ríkir í rekstrinum, þá langtímahugsun sem hefur skipt svo miklu máli hvað varðar ábyrgð útgerðarinnar í fiskveiðistjórninni, ábyrgð í umgengni við auðlindina og þann aga sem Kauphöllin veitir fyrirtækjum sem þar eru skráð. Það eru því þessir hlutir, herra forseti, sem ég hef áhyggjur af en hins vegar verð ég að segja að þeir aðilar sem þarna hafa komið að hafa áður sýnt að þeir eru þess trausts verðir að hafa langtímahagsmuni þjóðarinnar og auðlindarinnar í huga.