Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:08:58 (3710)

2004-02-02 16:08:58# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Á því er enginn vafi að niðurstaðan varðandi uppskiptingu hins mikla sjávarútvegsfyrirtækis Brims varð fyrir byggðirnir í Norðvesturkjördæmi betur viðunandi en margir óttuðust. Á Akranesi voru kaup Granda á Haraldi Böðvarssyni unnin að frumkvæði og í samráði við heimamenn, eigendur og stjórn þess fyrirtækis. Kaup Fiskiðjunnar Skagfirðings á Skagstrendingi er einnig unnin í sátt við heimamenn og forsvarsmenn fyrirtækisins hafa undirritað skuldbindandi yfirlýsingu um öfluga áframhaldandi starfsemi á Hólmavík og Skagaströnd, auk þess sem Höfðahreppur á Skagaströnd hefur með sölu sinni á hlutabréfum í Eimskip gríðarlega sterka fjárhagslega stöðu.

Það er nauðsynlegt að vekja athygli á því að það eru þrjú fyrirtæki sem nú standa að rekstri einingar sem áður var á einni hendi. Það er athyglisvert í ljósi umræðunnar sem farið hefur fram um samþjöppun í sjávarútvegi. Brim var með um 12% allra veiðiheimilda á sinni hendi. Nú er sá veiðiréttur hjá þremur fyrirtækjum.

Við vitum því miður að það eru mýmörg ljót dæmi úr fortíðinni um að uppstokkun og eignabreytingar hafa leitt til þess að kvóti hefur flust úr byggð. Atvinnustarfsemin hefur veikst í kjölfarið með tilheyrandi byggðaflótta og vandræðum. Það er því eðlilegt að sú óvissa sem hefur verið í kringum þessar eignabreytingar hafi valdið kvíða. Við eigum hins vegar ekki að ætla annað en að menn ætli að standa við fyrirætlanir sínar og áfram verði haldið uppi öflugri atvinnustarfsemi með sem líkustum hætti á þessum stöðum líkt og gefið hefur verið fyrirheit um.

Þetta leiðir hins vegar í ljós að það er beint samband á milli kvótaþróunar, atvinnutekna og byggðaþróunar í byggðum landsins. Það þýðir ekkert að reyna að halda öðru fram. Menn eru víðs vegar um landið að reyna að verja burðarfyrirtækin í sjávarútveginum til að treysta stöðu byggðanna sinna. Jafnvel staðir sem eiga að mörgu öðru að hverfa gera sér það ljóst að veikari sjávarútvegur veikir byggðirnar. Það er mjög mikilvægur lærdómur sem við drögum af þessari umræðu. Ég held að hún hafi varpað að mörgu leyti nýju ljósi á þá umræðu sem farið hefur fram um sjávarútveginn og byggðirnar og brýnir okkur í því að reyna að treysta þær stoðir sem undir þessum byggðum eru og fjölga þeim svo að menn séu ekki jafnháðir sjávarútveginum og verið hefur.