Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:13:40 (3712)

2004-02-02 16:13:40# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Gunnar Örlygsson:

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir hverjir keyptu sjávarútvegsrisann Brim. Tíminn einn mun leiða í ljós hver framvindan verður í rekstri Haraldar Böðvarssonar, Skagstrendings og Útgerðarfélags Akureyringa. Það sem stendur eftir er sú umræða sem fram fór meðan á söluferlinu stóð. Umræðan var á margan hátt athyglisverð því að í henni kristölluðust nokkrir af alvarlegustu vanköntum núverandi kvótakerfis.

Í fyrsta lagi minnti umræðan vel á það gríðarlega ójafnræði sem ríkir í atvinnugreininni, þ.e. á milli stöðu útgerðaraðila sem ráða yfir miklum veiðiheimildum annars vegar og hins vegar fólksins sem býr á viðkomandi stöðum og á lífsviðurværi sitt og eignir að meira eða minna leyti undir því að útgerðarfyrirtækin séu áfram á staðnum, en ræður engu þar um.

Í öðru lagi minnir kvótaverðið í þessum tilteknu viðskiptum óneitanlega á þá staðreynd að ungir, kraftmiklir einstaklingar sem í marga áratugi, fyrir daga kvótakerfisins, voru helstu drifkraftar í íslenskri útgerð eiga enga möguleika á innkomu í greinina nema vera milljarðamæringar.

Í þriðja lagi ber að nefna hlut íslenskra bankastofnana í hinum illræmda viðskiptaleik sem framsalsrétturinn hefur alið af sér. Í fyrstu voru það einstaklingar sem högnuðust stórum á sölu aflaheimilda og brotthvarfi sínu frá íslenskri útgerð. Í dag hafa bankarnir tekið við færinu á þeim bænum. Íslenskar bankastofnanir og fjármálafyrirtæki hafa með lagni náð að sölsa undir sig þorra þeirrar framlegðar sem íslenskur sjávarútvegur rís undir.

Að teknu tilliti til þessara alvarlegu vankanta má ljóst vera að sátt um framseljanlegt kvótakerfi er ekki í sjónmáli. Reynt hefur verið að leita leiða til sátta án nokkurs árangurs. Sátt um íslenska fiskveiðistjórn mun ekki líta dagsins ljós fyrr en stjórnarliðar viðurkenna stærstu mistök íslenskrar stjórnmálasögu, þegar framsalsrétturinn var lögleiddur fyrir rúmum áratug. Mistökin hafa kostað íslenska þjóð hundruð milljarða íslenskra króna á þeim tíma sem liðinn er.