Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:41:29 (3720)

2004-02-02 16:41:29# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:41]

Össur Skarphéðinsson:

Virðulegi forseti. Um efni þessa máls vil ég segja það að í öllum helstu atriðum er Samf. samþykk þessu frv. Áður en ég kem þó að efni frv. vil ég fara nokkrum orðum um þann kostnað sem af því hlýst.

Mér finnst dálítið merkilegt, miðað við það að við höfum á síðustu árum verið að samþykkja á fjárlögum töluverðar upphæðir til þess að væða fjmrn. betri tölvukerfum og nákvæmari tækjum til þess að geta haldið skýrslur og útreikninga, að það gerist tiltölulega oft á seinni mánuðum og missirum, þegar við þingmenn vörpum fram spurningum til hæstv. fjmrh., að svörin sem við fáum eru þess eðlis að þau fela nánast ekkert efnislegt í sér og ástæðan sem gefin er upp er sú að ekki séu til gögn yfir málið. Ég hef ekki séð ástæðu til þess að vekja sérstaka eftirtekt á þessu eða mótmæla því. Mér finnst það samt skrýtið.

Nú gerist það þegar við hlýðum á hæstv. fjmrh. reifa kostnað af þessu frv. að í ljós kemur að gögnin sem hæstv. ráðherra hefur undir höndum í ráðuneytinu eru þess eðlis að það er erfitt fyrir hann að gera glögga grein fyrir því hvað þetta frv. kostar. Hæstv. ráðherra var einn af þeim sem tók ákvörðun um það á sínum tíma að leggja ekki fram frv. af hálfu ríkisstjórnarinnar nema á þeim væri nokkuð nákvæm kostnaðargreining. Hæstv. ráðherra telur að tekjurnar sem ríkissjóður hefur árlega fengið af frv. séu í kringum 800 millj. og hann sagði jafnframt að það mætti gera ráð fyrir því að þetta frv., yrði það samþykkt, leiddi til þess að helmingur þeirra tekni félli niður. Það reiknar hann út að séu 400 millj. kr., og færa mætti rök að því miðað við þær upplýsingar sem fram komu í máli hans að það væri eilítið meira. Í frv. kemur hins vegar fram að það kunni að vera ekki nema 300 millj. Mér þætti vænt um það ef hæstv. ráðherra gæti skýrt örlítið þennan mun sem þessar upplýsingar hlaupa þarna á. Þetta er þó ekki aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er að það er í fyrsta lagi verið að einfalda kerfið, og ég fagna því. Ég er alveg sammála því sem hæstv. ráðherra sagði, að stighækkandi skatthlutfall, eins og hæstv. ráðherra gat um, gefur ekki af sér skilvirka skattaumsýslu né skilvirk skattskil.

Í öðru lagi er ég líka sammála því að það eigi að lækka sjálft skatthlutfallið. Þegar einstaklingur deyr og leifir arfi hagnast sá sem við honum tekur, eignir hans og tekjur aukast. Þetta hefur verið metið með þeim hætti að það sé verjanlegt að skattleggja það. Í reynd er hæstv. fjmrh. að taka hér upp annað viðmið, annað grundvallaratriði, og ég get í sjálfu sér alveg fallist á það grundvallaratriði líka.

[16:45]

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé áform hans eða ætlun ríkisstjórnarinnar á næstu árum að fella þennan skatt alveg brott. Mín ályktun af því grundvallaratriði sem hæstv. ráðherra leggur sem undirstöðu að sínu máli, má þá ekki líka draga þá ályktun að fella ætti burtu með sömu röksemdafærslu gjöld eins og t.d. stimpilgjöld?

Ég vek máls á þessu, virðulegi forseti, vegna þess að Samf. hefur lýst þeirri skoðun að menn eigi að feta sig að því að fella þau gjöld niður. Mér sýnist að þau séu með vissum hætti eðlislík að því leytinu til að verið er að skattleggja yfirfærslu á eignum. Ég vildi gjarnan þegar og ef hæstv. ráðherra sér ástæðu til að koma síðar upp í umræðuna, að hann færi nokkrum orðum um þetta því að hér er a.m.k. um grundvallaratriði að ræða sem varðar tiltekinn hluta skatttekna ríkisins þó smár sé.

Ég hef sem sagt lýst þeirri skoðun að ég tel að málið sé ágætt. Auðvitað er það svo að Samf. hefur haft aðrar áherslur varðandi skattalækkanir. Við höfum talið að brýnast í þeim efnum væri að lækka virðisaukaskatt á matvælum, lækka lægra þrepið niður í 7%. Um það höfum við flutt þingmál og ég hef reyndar talið að það væri þokkaleg samstaða meðal þorra þingmanna um að ráðast í slíkt ef á annað borð er borð fyrir báru hjá ríkinu.

Ég hlýt auðvitað líka að vekja eftirtekt á því, frú forseti, að kostnaðurinn sem hér fellur á ríkissjóð og þær tekjur sem hann lætur frá sér með annarri hendi verður ef að líkum lætur gerð tillaga um síðar í dag að verði tekinn aftur tvöfalt eða þrefalt. Ég á þá við það þingmál sem rætt verður og tengist sjómannaafslættinum sem er á dagskrá hér síðar. Þannig að þó að hæstv. ríkisstjórn sé að gera tillögu um smávægilegt tap á skatttekjum er í reynd verið að gera ráð fyrir því að á tilteknum afmörkuðum hópi þegnanna hækki skattur síðar í dag eða að gerð verði tillaga um það.

Það sem ég vildi gera athugasemdir við varðandi þetta frv. er að í gildandi lögum er heimild til þess að fella niður erfðafjárskatt við sérstakar aðstæður. Það er talið upp í lögum t.d. ef um er að ræða sambúð fólks sem sætir örorku og síðan er talað um svipaðar aðrar aðstæður. Ég er þeirrar skoðunar að fjmrh. eigi að hafa heimild til að gera slíkt. Ekki ætla ég að fara að rifja upp of persónuleg dæmi en mig langar samt að segja það við hv. þingheim að við höfum séð í blöðum nýlega fara af stað söfnun handa börnum vestur á fjörðum sem urðu fyrir því óláni og ógæfu að hafa á undanförnum árum misst báða foreldra sína. Ég ímynda mér, virðulegi forseti, að það væri miskunnsamara og þægilegra fyrir þá sem hafa með skattheimtu að gera að það væri áfram heimild í lögum til þess að koma til móts við fólk við alveg sérstakar aðstæður eins og ég hef skilið að þessi heimild sem nú er verið að fella niður næði yfir í þessu tiltekna tilviki, án þess að ég ætli að ræða það frekar.

Sömuleiðis er það þannig að líknarfélög hafa verið undanþegin erfðafjárskatti. Það hefur mér hugnast ákaflega vel. Mér finnst það ákaflega göfugt þegar fólk sem náð hefur að safna einhverjum eigum og hverfur úr þessum heimi yfir í aðra og æðri, lætur það verða sitt síðasta verk að að ánafna líknarfélögum sem vinna í göfugum tilgangi þann arf eða hluta þess arfs sem hinn látni leifir. Ég tel að það eigi að ýta undir slíkt og því spyr ég hæstv. ráðherra af hverju honum er svo brátt að fella þetta ágæta ákvæði í burtu.

Sömuleiðis þegar ég les þetta frv. er ég ekki að öllu leyti sáttur við orðanotkun í því. Ég misskil kannski, virðulegi forseti, efnislega það sem segir í 2. gr. þar sem hugtök eru skilgreind en hví er ekki talað þar um þá sem eru í staðfestri samvist? Þar er rætt um sambýlismann, þann sem stofnað hefur til sambúðar við einstakling (Gripið fram í: Það er í 4. gr.) af gagnstæðu kyni. Mér er kunnugt um það, það kemur í 4. gr., en þar er talað um staðfesta samvist og reyndar líka í grg. En ég velti því samt fyrir mér hvort ekki hefði átt að taka það með skeleggari hætti hérna vegna þess að það liggur fyrir ákveðinn lagaskilningur í öðrum lögum og mér finnst einhvern veginn eins og grg. sé rituð með það í huga.

Fleiri smærri dæmi gæti ég nefnt en ekki að það skipti nokkru máli, t.d. þegar ég les saman 2. gr. a og b og velti fyrir mér hvernig menn ætli að skilgreina maka og sambýlisfólk með sitt hvorum hætti, en þetta er nú bitamunur en ekki fjár sem við förum yfir í nefndinni.

Almennt segi ég það að þetta er ágætismál. Þetta er réttlætismál. Þetta er kannski ekki forgangsmál miðað við þær áherslur sem við í Samf. höfum lagt í þessum efnum en ég tel að þegar búið er að fara yfir það og skjóta undir smávægilega leka sem ég sé á frv. þá geti Samf. stutt það.