Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:02:27 (3723)

2004-02-02 17:02:27# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að ríkisstjórnin er að efna skattalækkunarloforð sín, það er byrjunin. Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson situr í efh.- og viðskn. ásamt mér og fleirum vil ég nefna að á haustþinginu var lögfest að hátekjuskattur mundi lækka úr 5% í 4% og síðan detta út á næstu tveimur árum. Þá dettur hann út. Hæstv. fjmrh., hæstv. forseti, hefur tjáð sig með þeim hætti að í tengslum við kjarasamninga munu aðrar skattalækkanir verða ræddar.

Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin hafi verið að hækka þungaskatt og bensíngjald. Þau gjöld voru færð að því verðlagi. Einungis þessi skattahækkun sem hv. þm. kallar svo var í raun og veru skattalækkun. Fjmrn. láðist að færa þetta upp ár frá ári og það var gert núna fyrir þriggja ára tímabil í einu. Það er oft betra að taka verðlagsbreytingar strax á milli ára og hækka samkvæmt þeim til að hafa sama verðlag. Ef maður reiknar á sama verðlagi þungaskattinn og bensíngjaldið er það lægra en það var fyrir þremur árum. Þetta veit hv. þm. mjög vel.

Ég var ekki að tala um það, hæstv. forseti, með Trust Funds að við vildum gera það hér á landi, heldur hefur það einungis verið gert erlendis og er ekki þörf á því að slíkt frv. verði hér lagt fram.