Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:15:39 (3727)

2004-02-02 17:15:39# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:15]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að skattar voru mikið til umræðu fyrir síðustu kosningar og Samf. lagði fram tillögur sínar um skattbreytingar. Þær tillögur voru allar unnar út frá þeim sjónarmiðum sem Samf. hefur í skattamálum, þ.e. að skattar eru auðvitað hluti af velferðarkerfinu í landinu. Það hvernig skattar eru innheimtir skiptir miklu máli og hvers konar skattar eru lagðir á.

Við höfum lagt áherslu á að þær breytingar sem verða verði almenningi í landinu, launþegum, millitekjufólki og öðrum launþegum, til lækkunar á álögum og t.d. matarskattur og slíkir skattar verði lækkaðir og að hluta til verði gengið til baka með þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum sem eru barnafólki mjög þungar í skauti. Þessi atriði voru öll lögð til grundvallar þeim tillögum sem við höfum lagt til.

Hvað varðar erfðafjárskattinn væri að mínu viti betra að ganga þá götu til enda og leggja hann af. Það er ekki vegna þess að þeir sem fá fjármunina til sín séu ekki að fá ákveðin verðmæti í sinn hlut en við vitum að í gegnum tíðina hefur það verið þannig að sá sem vill að verðmætin komist til ættingja síns eða einhvers annars getur gripið til ýmissa ráða til að láta það gerast sé skattaumhverfið ekki eins og það þarf að vera. Ég tel því að það sé skynsamlegt að breyta þessum erfðafjárskatti en mér finnst það ekki forgangsmál í skattamálum. Ég verð að segja það að ég undrast þá forgangsröðun sem hefur orðið á skattamálum hjá ríkisstjórninni að þessu leyti.