Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:21:47 (3730)

2004-02-02 17:21:47# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað skiptir það máli fyrir pólitískt siðferði í landinu að stjórnmálaflokkar efni loforð sín eða séu sjálfum sér samkvæmir. Það er alveg rétt og slíkt ber að virða. Hins vegar get ég trúað hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir þeirri persónulegu skoðun minni að ég vona að Sjálfstfl. efni sem allra minnst af kosningaloforðum sínum, sérstaklega þau sem lúta að heilbrigðisþjónustunni í landinu. Hana vilja þeir einkavæða. Þeir vilja koma henni út á markaðinn og þar er samhengi á milli skattalækkunaráformanna. Það á að ýta þjónustunni út fyrir veggi sjúkrahúsanna, markaðsvæða hana og láta síðan einstaklingana borga beint, borga brúsann. Í stað þess að greitt sé af samneyslunni almennt verður það hinn sjúki sem kæmi til með að axla byrðarnar.

Það er vert að hafa í huga að jafnan þegar þjóðin hefur verið spurð um þetta beint, hvorn kostinn hún velji, sjúklingaálögurnar, greiðslur sjúklinga, eða fjármögnun úr almannasjóðum, þá er yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar fylgjandi því að velferðarþjónustan í landinu, þar með heilbrigðiskerfið, verði fjármagnað með skattfé.