Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:35:46 (3734)

2004-02-02 17:35:46# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur legið fyrir mjög lengi, alveg frá því að ríkisstjórnin var mynduð, hvað hún hygðist fyrir varðandi skattalækkanir. Og það er alveg sama hvað menn segja hér í þinginu um það, þetta hefur legið fyrir í stjórnarsáttmálanum og af hálfu oddvita ríkisstjórnarinnar um langa hríð. Það sem við blasir í þeim efnum er að ríkisstjórnin ætlar sér að lögfesta í krafti meiri hluta síns á Alþingi tilteknar lagabreytingar varðandi tekjuskatt, eignarskatt og e.t.v. virðisaukaskatt þegar fyrir liggur niðurstaða varðandi kjarasamningana. Þetta stendur allt í stjórnarsáttmálanum. Og þegar niðurstaða liggur fyrir varðandi þá samninga er hægt að flytja þessi þingmál inn í þingið og lögfesta þau jafnvel þó svo að ekki kæmi allt til framkvæmda samtímis. Það væri hægt að hugsa sér að í þessum lögum yrðu tilteknar dagsetningar þar sem þetta kæmi til framkvæmda í áföngum.

Allt er þetta þekkt og hefur oft komið fram áður af minni hálfu og annarra og er náttúrlega sama aðferðin og notuð var á árunum 1997--1999 þegar lögfestar voru skattalækkanir sem komu þá til framkvæmda.

Ég geri mér vonir um að þetta mál skýrist kannski með þeim hætti á næstunni að við gætum séð slíkt frv. eða slík frv. verða að lögum á þessu þingi í vor. Um það get ég að sjálfsögðu ekkert fullyrt en það væri von mín og óskastaðan í málinu, held ég.