Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:44:42 (3739)

2004-02-02 17:44:42# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur ef hv. þm. Pétur H. Blöndal telur að ég telji það vera eitthvert bannorð að ræða skatta í tengslum við kjarasamninga. Ég var að vísa til þess að það væri þá æskilegt að gera það í tengslum við samninga við launaþegahreyfinguna í heild sinni. Ég var jafnframt að vekja athygli á því að samtök launafólks í landinu hafa fundið til samstöðu að undanförnu vegna áforma ríkisstjórnarinnar í því sem hv. þm. kallar fyrirtækið Landspítala -- háskólasjúkrahús, sem er stærsta sjúkrahús landsins og okkar mesta velferðarstofnun. Þar er verið að skerða kjör, bæði reka fólk og skerða kjör hjá hátt á sjötta hundrað manns og tekur til 12% starfsmanna.

Ég var einnig að nefna nokkur dæmi um hvernig niðurskurðurinn bitnar á þjónustunni á geðsjúkum í Arnarholti svo dæmi sé tekið, á krabbameinssjúkum á líknardeildinni og þrifum á spítalanum. Það á að draga þau saman um 10% og þar hefur verið þrengt mjög að á undanförnum árum. Búið er að bjóða út þriðjunginn, eftir því sem ég kemst næst, af þrifum á spítalanum og það hefur yfirleitt haft í för með sér mikla kjaraskerðingu fyrir starfsfólkið sem sinnir þessum verkum og nú á enn að þrengja að.

Það er alveg rétt að meiri fjármunum er varið til Landspítalans en var fyrir einhverjum árum eða missirum og við verjum miklu, miklu meira en við gerðum fyrir 10 árum, 20 árum, 50 árum og 100 árum, en menn hafa verið að bæta þessa þjónustu og laga hana að þörfum fólks. (Forseti hringir.) Nú er hins vegar verið að skerða þessa þjónustu með fyrrgreindum afleiðingum.