Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:47:45 (3741)

2004-02-02 17:47:45# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að menn kveini alltaf undan því þegar fólki er sagt upp störfum, og það er alvarlegur hlutur að missa vinnu sína. (Gripið fram í.)

Það sem verið er að vekja athygli á er að með þessum uppsögnum og með þessari skerðingu á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi, sem tekur til 12% vinnuaflsins, er verið að skerða stórlega þjónustu við sjúkt fólk, og þjónusta á sjúkrahúsi er lækningar, hjúkrun og aðhlynning. Menn hafa verið að lesa um það í blöðunum og fylgst með því í fréttum að líknardeild sjúkrahússins er í uppnámi, endurhæfing fyrir fjölfatlaða og krabbameinssjúklinga verður lögð niður. Það er engin ákvörðun tekin um framhaldið, hvort hún verður einkavædd eða hvað yfirleitt verður um þá þjónustu. Það er búið að segja fjörutíu geðsjúkum einstaklingum í Arnarholti að heimili þeirra verði lagt niður, án þess að nokkrar vísbendingar séu um framhaldið. Þetta eru staðreyndirnar.

Síðan kemur talsmaður Sjálfstfl. í almannatryggingum og velferðarmálum hingað upp, og talar um þetta ,,fyrirtæki``, þessi mál og þennan alvarlega niðurskurð af svo ótrúlegri léttúð og ábyrgðarleysi að það hálfa væri nóg.

Hins vegar er það staðreynd að núv. ríkisstjórn er að framkvæma samkvæmt þeim yfirlýsingum og þeim orðum sem vella upp úr hv. þm. Pétri H. Blöndal, því miður.