Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 18:01:53 (3745)

2004-02-02 18:01:53# 130. lþ. 54.7 fundur 480. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (EES-reglur, fjárfestingar o.fl.) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem við ræðum hér snýr m.a. að starfsemi lífeyrissjóða. Í lögunum um starfsemi lífeyrissjóða er þeim ætlað hlutverk og þeim í raun markað hver fjárfestingarstefna þeirra megi vera. Í 37. gr. eru talin upp nokkur atriði sem lífeyrissjóðum er heimilt að fjárfesta í, svo sem ríkisvíxlar, skuldabréf, með innlánum í banka og sparisjóði o.s.frv.

Nú hagar svo til, virðulegi forseti, að talsverðar líkur eru á því að hinir starfandi sparisjóðir í landinu verði jafnvel keyptir upp af bönkum ef svo heldur fram sem horfir. Frjálsl. hefur lagt fram frv. á hv. Alþingi um að stöðva þá vegferð sem þar hefur verið lagt af stað með. Við vitum svo sem ekkert hvaða afgreiðslu það mál fær eða hvort önnur mál koma hér inn sem tengjast því. Ef við gefum okkur það að sú vegferð sem núna virðist vera heimil í lögum um sparisjóði og menn virðast ætla að stefna til, að koma þeim í söluferli undir bankastofnanir í landinu, held ég að orðið sé meira en tímabært, virðulegi forseti, að fara að velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að útvíkka starfsemi lífeyrissjóðanna. Það mætti hugsa sér að þeim yrði ekki lengur skömmtuð sú fjárfestingarstefna eða útlánastefna og ávöxtun síns fjár eins og hér er greint í þessum lögum, og verið að marka nánar í því frv. sem við núna erum að ræða, heldur gæti jafnvel komið til víðtækari starfsemi. Menn þurfa þá að velta fyrir sér hvort lífeyrissjóðirnir sem starfa vítt og breitt um landið fengju víðtækara hlutverk til lánastarfsemi en þeir hafa í dag. Í dag mega lífeyrissjóðir lána félagsmönnum sínum til fasteignakaupa og það er auðvitað einn þáttur sem kannski þyrfti að ræða, sérstaklega með tilliti til stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka heimildir til lántakenda í húsnæðiskerfinu og hækka það lánshlutfall. Þegar lífeyrissjóðunum eru svo sett hér takmörk í þessum lögum um það hversu hátt þeir megi fara í lánshlutfalli sínu til eigin félagsmanna, þ.e. greiðendanna í lífeyrissjóðnum sem eiga rétt á að taka lán í lífeyrissjóðnum, er heimildin enn skertari. Ef ég man rétt er í lögunum um lífeyrissjóði núna heimild um það að lífeyrissjóðirnir megi eingöngu lána upp að 65% af fasteignamati. Mér sýnist stefna til þess að það verði verulegur munur á því, enda segir í 3. tölul. 1. mgr. 36. gr. að lífeyrissjóði sé heimilt að ávaxta fé sitt ,,í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 65% af metnu markaðsvirði nema þegar um er að ræða sérhæft atvinnuhúsnæði ...``.

Það er auðvitað mjög margt, virðulegi forseti, sem getur verið að breytast núna í þjóðfélagi okkar varðandi lánastarfsemi og starfsemi á lánamarkaðnum annars vegar, og einnig er það sem snýr að möguleikum fólks til lántöku er varðar t.d. íbúðarhúsnæði. Lífeyrissjóðirnir hafa haft það lánahlutverk sem hér er markað við 65%. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu, virðulegi forseti, við þessa umræðu og tel að það þurfi að skoða heimildir lífeyrissjóðanna til lánastarfsemi, m.a. til lánahlutfalls til eigin félagsmanna, og hvort ekki þurfi þá að skoða einnig heimildir lífeyrissjóðanna til þess hversu hátt hlutfall þeir megi lána til félagsmanna sinna varðandi fasteignir í tengslum við þær breytingar sem þegar hafa verið boðaðar af ríkisstjórninni um húsnæðislánin. Það er jú hlutverk lífeyrissjóðanna bæði að lána til félagsmanna sinna en þó sérstaklega að ávaxta fé sjóðanna. Það er meginmarkmið þeirra að ávaxta fé lífeyrissjóðanna þannig að þeir geti tryggt félögum í lífeyrissjóðnum eðlileg og sanngjörn lífeyrisréttindi að starfsævi lokinni.

Mér sýnist þetta spila inn í þessi mál öllsömul þannig að sú spurning sem hér kom fram hjá hv. þm. Gunnari Örlygssyni áðan um það hvort það væri eðlilegt að lífeyrissjóðir gætu stofnað til víðtækrar bankastarfsemi eigi fullan rétt á sér í umræðunni eins og hún er í dag. Hvernig sjá menn fyrir sér ef bankar kaupa upp sparisjóði landsmanna vítt og breitt um landið? Á þá að koma hér upp ofurvald tveggja eða þriggja bankastofnana er varðar viðskiptakjör venjulegs fólks? Hvers vegna mega þá ekki lífeyrissjóðirnir hugsanlega koma inn í almenna lánastarfsemi, í fyrsta lagi til sjóðfélaga sinna og svo jafnvel víðtækara en það?

Ég held að menn verði að hafa þessa spurningu í huga og þess vegna kom ég hér upp, virðulegi forseti, til að koma með þetta sjónarmið betur inn í umræðuna. Ég held að menn verði að spyrja sig þessarar spurningar. Það er verið að breyta lánastarfseminni í landinu. Við sjáum hvert getur stefnt með sparisjóðina. Við vitum stefnumótunina varðandi það að hækka lánshlutfall í húsnæðislánakerfinu. Og allt hefur þetta auðvitað áhrif á þær heimildir sem lífeyrissjóðirnir hafa til þess að ávaxta sitt fé. Og eigi veitir nú af fyrir framtíðina að lífeyrissjóðirnir hafi þá bestu möguleika til að ávaxta sitt fé sem kostur er því í því er jú falið það að lífeyrissjóðirnir geti orðið sjálfbærir með það að tryggja fólki lífeyri. Allir í þessum sal hljóta að vera sammála um að það er auðvitað mjög mikilvægt og mikilvægasta hlutverk lífeyrissjóðanna að þeir hafi möguleika til þess að ávaxta sitt fé á þann besta hátt sem þeir telja á hverjum tíma.

Ég vildi varpa þessu hér inn í umræðuna. Og þó að þetta viðhorf hafi ekki verið rætt hér almennt þegar fjmrh. mælti fyrir þessu máli vildi ég ekki láta umræðuna líða án þess að þetta kæmi fram. Það getur vissulega dregið til fákeppnissamkeppni nokkurra stórra bankastofnana sem komi til með að eignast sparisjóðina. Og hvað þá með hlutverk lífeyrissjóðanna? Eiga þeim að vera sett algjör takmörk, eða eiga þeir að fá víðtækari heimildir til að lána félagsmönnum sínum, eða jafnvel bara til almennrar lánastarfsemi þar sem þeim er gert kleift að tryggja sitt fé og ávaxta á þann besta hátt sem þeir telja á hverjum tíma?

Það er alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir sem starfa vítt og breitt um landið kunna að líta öðrum augum á ávöxtunina miðað við sitt landsvæði og þar sem þeir starfa, alveg eins og við höfum kannski talið að sparisjóðirnir gerðu að hluta til.

Ég held, virðulegi forseti, að það frv. sem við erum hér að ræða, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með þeim breytingum sem þeir eru að leggja til, og einnig löggjöfin eins og hún er, eins og ég hef vakið athygli á, gefi fullt tilefni til þess að ræða þetta mál í víðara samhengi, ekki síst ef svo illa skyldi fara að sparisjóðirnir rötuðu allir undir eignaraðild bankanna. Fyrir því er auðvitað mikill vilji hjá sumum þingmönnum hér á hv. Alþingi.

Ég vil beina því til hæstv. fjmrh. að hann hugleiði það sem ég hef verið að segja. Ég vonast til þess að þau viðhorf sem ég hef reifað komi til umræðu í hv. nefnd þegar þessi mál verða tekin til skoðunar. Mér finnst ekki einboðið að málið haldi áfram í þeim farvegi sem það hefur verið í og það séu sett takmörk á það hvernig lífeyrissjóðirnir geta best ávaxtað sitt fé. Það er jú hlutverk þeirra að búa til sterkan möguleika fyrir launafólkið í þessu landi til að hafa afkomu á elliárunum. Og það á ekki að setja fótinn fyrir það að lífeyrissjóðirnir geti farið þær leiðir á hverjum tíma sem þeir telja bestar og öruggastar til þess að tryggja það. Það hlýtur að vera hlutverk okkar hér á Alþingi að reyna að horfa til þess og velta upp öllum möguleikum sem koma fram og geta komið til álita í þessu sambandi.