Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 18:16:47 (3748)

2004-02-02 18:16:47# 130. lþ. 54.7 fundur 480. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (EES-reglur, fjárfestingar o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að eftir að bandarískir auðmenn keyptu ríkisskuldabréf á Íslandi hafi sú breyting orðið á að hér varð allt yfirfljótandi í peningum. Bandarískir auðmenn hafa þannig lækkað vexti fyrir lágtekjufólk á Íslandi, hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Það er rétt hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að landsbyggðarfólk hefur ekki sömu möguleika til lánsfjár og fólk á Reykjavíkursvæðinu. Það er vegna þess að að ríkisbankarnir brugðust. Ríkisbankarnir, sem hefðu átt að lána til landsbyggðarinnar, skrúfuðu að mestu fyrir þau útlán, hefur mér verið tjáð. Þá vantaði staðbundna þekkingu, herra forseti. Þá vantaði staðbundna þekkingu sem sparisjóðirnir búa yfir. Það er mjög verðmæt þekking. Það er þekking þess sem veit að hann Gunnar borgar aldrei lán en Jóna borgar alltaf öll lán sem hún tekur. Þá þekkingu eiga bankarnir í Reykjavík, sem núna sitja uppi með gnótt fjár, að nýta sér til að koma peningum til landsbyggðarinnar, koma út peningum sem þeir geta ekki komið út hérna í Reykjavík. En til þess þurfa þeir þessa staðbundnu þekkingu sem sparisjóðirnir búa yfir. Þetta eiga þeir að gera annaðhvort með samvinnu við sparisjóðina eða með yfirtöku á þeim.

Ég átti von á því að fundur, sem boðaður var í hv. efh.- og viðskn. að beiðni hv. þm. Ögmundar Jónassonar, sem ég féllst fúslega á, mundi leiða í ljós möguleikann á slíku. Af þeim fundi hefur ekki getað orðið. Hann verður í fyrramálið.