Boðun til ríkisráðsfundar

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 13:38:43 (3753)

2004-02-03 13:38:43# 130. lþ. 55.91 fundur 285#B boðun til ríkisráðsfundar# (aths. um störf þingsins), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Forseti (Halldór Blöndal):

Við fengum lýðveldi 1944, hv. þingmaður, og þess vegna var fyrsti ríkisráðsfundur hins íslenska lýðveldis haldinn á árinu 1944.

Ég vil í annan stað segja vegna ummæla hv. þingmanns að að öllu leyti var eðlilega staðið að boðun þessa ríkisráðsfundar. Það hefur aldrei komið fyrir þann tíma sem ég hef verið forseti Alþingis og ég hygg aldrei áður --- ég hef spurst fyrir um það hjá öðrum handhöfum forsetavalds hvort það hafi nokkru sinni komið fyrir að þeir hafi séð ástæðu til þess að hringja í forseta sem er erlendis eða hann séð ástæðu til að hringja í þá til þess að tala um það hvernig með vald forseta sé farið. Það hefur aldrei verið gert. Enda eru það handhafar forsetavaldsins sem fara með það á hverjum tíma og þegar forseti hefur horfið úr landi eru það forsrh., forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar. Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. segir í niðurlagi þessa bréfs sem mér barst undir kl. 8 á föstudagskvöldi --- þá var það faxað til Alþingis en ritari minn vinnur ekki um helgar og ég var fyrir norðan og fékk ekki af þessu að vita fyrr en á mánudegi eftir að forseti hafði horfið úr landi:

,,Dagskrá í New York er frá 25.--30. janúar. Í framhaldinu verður forseti í einkaerindum og verður heimkoma tilkynnt síðar.``

Það er forsrh. sem boðar til ríkisráðsfundar og ef ég átti að taka það til mín, þá spurningu hvort viðeigandi væri að ríkisráð kæmi saman til þess að minnast þess að 100 ár voru liðin síðan þingræði var komið á á Íslandi (SJS: Ha?), þykir mér vænt um að lýsa því yfir í þessu húsi að mér finnst tilefni til þess að við gerum okkur dagamun og hittumst og ríkisráðið haldi hátíðarfund í tilefni af því að þingræði var komið hér á fyrir 100 árum.