Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:19:24 (3757)

2004-02-03 14:19:24# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2004--2008. Þáltill. hefur verið unnin á grundvelli 65. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, sem kveður á um að umhvrh. skuli láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi. Þáltill. felur í sér stefnumótun til framtíðar og að ákveðin verði forgangsröðun á verkefnum sem vinna skal að á næstu fimm árum hvað varðar verndun svæða, en með gerð hennar er brotið blað í sögu náttúruverndar á Íslandi.

Með náttúruverndaráætlun er lagður grundvöllur að markvissari verndun náttúru Íslands en áður hefur tíðkast. Markar hún fyrsta skrefið í þá átt að koma á fót skipulögðu neti verndarsvæða hér á landi sem byggist annars vegar á vísindalegum gagnagrunnum um náttúru Íslands og hins vegar á faglegu mati á verndargildi þeirra.

Lagt er til í náttúruverndaráætlun að stigin verði markvissari skref í friðlýsingu svæða á næstu fimm árum en gert hefur verið áður. Nokkur verkefni ber hæst í náttúruvernd á þessu tímabili. Komið verði á heildstæðu neti verndaðra fuglasvæða með alþjóðlegt verndargildi, unnið verði að stækkun tveggja núverandi þjóðgarða og undirbúin verði stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og verndarsvæða sem tengjast honum, en ákvörðun um Vatnajökulsþjóðgarð hefur þegar verið tekin af ríkisstjórn. Að auki verður unnið að friðlýsingu nokkurra svæða þar sem er að finna sjaldgæfar plöntutegundir, náttúrulegan birkiskóg og tveggja svæða með sérstæðum jarðmyndunum.

Áður en ég fer yfir þau svæði sem lagt er til að verði í forgangi í starfi okkar næstu fimm árin vil ég byrja á að fara stuttlega yfir þá faglegu vinnu sem staðið hefur yfir í um fjögur ár og það samráð sem átt hefur sér stað. Mikilvægt er að haft sé í huga að nú er verið að gera náttúruverndaráætlun í fyrsta sinn og því um leið verið að móta ákveðið ferli. Í ferlinu hefur mörgum aðilum verið gefinn kostur á að koma sínum athugasemdum og ábendingum að en unnið verður að útfærslu áætlunarinnar í nánu samráði við hagsmunaaðila.

Áætlunin var unnin í tveimur megináföngum. Fyrst var unnin ítarleg tillaga að náttúruverndaráætlun á vegum Umhverfisstofnunar í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og aðrar fagstofnanir þar sem gerð var tillaga um verndun 77 svæða sem ætti að tryggja verndun þeirra tegunda fugla og plantna sem helst eru verndarþurfi á landinu, verndun helstu flokka jarðminja, mikilvægustu birkiskóga landsins og mikilvægra vatnakerfa. Í endanlegri tillögu Umhverfisstofnunar sem ber heitið Náttúruverndaráætlun, aðferðafræði -- Tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar, er lagt til að 75 svæði verði vernduð, en þar er hins vegar ekki að finna forgangsröðun á þeirri vinnu sem fram þarf að fara varðandi verndun svæðanna. Tillögunum hefur verið dreift til þingmanna og gefa þær góða heildarmynd af stöðu mála.

Síðari áfangi verksins fólst í ítarlegri yfirferð ráðuneytisins á tillögum Umhverfisstofnunar og með því mótun náttúruverndaráætlunar til næstu fimm ára fyrir tímabilið 2004--2008. Hef ég heimsótt og kynnt mér nær öll svæðin 75 sem er að finna í tillögum Umhverfisstofnunar og fundað á mörgum svæðanna með heimamönnum um mögulega verndun þeirra. Í kjölfar þess voru drög að náttúruverndaráætlun 2004--2008 unnin í umhvrn. en drögin hafa að geyma 14 svæði af þeim 75 sem tillögur Umhverfisstofnunar höfðu að geyma. Drög að tillögu til náttúruverndaráætlunar voru að lokum lögð fram til kynningar og umræðu á umhverfisþingi sem haldið var 14. og 15. október 2003 en það sækja m.a. alþingismenn, fulltrúar stofnana ríkisins og sveitarfélaga og fulltrúar atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka sem hafa umhverfisvernd og sjálfbæra þróun á stefnuskrá sinni. Markmiðið með þessari kynningu var að skapa umræðu um áætlunina sjálfa og náttúrúvernd á Íslandi sem og að gefa þátttakendum á umhverfisþingi tækifæri til að hafa áhrif á gerð náttúruverndaráætlunar 2004--2008.

Mikilvægt er að hafa í huga að mismunandi forsendur liggja að baki við val á svæðum til verndunar og stundum er um að ræða samspil margra þátta. Lögð voru tiltekin viðföng til grundvallar, svo sem líffræðileg fjölbreytni, jarðfræðileg fjölbreytni, landslag og menningarminjar og þau metin út frá verndarviðmiðum, svo sem hvort sjaldgæfar tegundir lífvera finnist á svæðinu, hvort svæðið sé óvenjutegundaríkt eða viðkvæmt fyrir röskun, hvort það sé nauðsynlegt til viðhalds sterkra stofna mikilvægra tegunda eða mikilvægt fyrir viðhald náttúrlegra þróunarferla, hvort það hafi alþjóðlegt verndargildi eða sé einkennandi fyrir náttúrufar viðkomandi landshluta. Ákvörðun var tekin um að vinna að nokkrum stórum verkefnum í náttúruvernd á tímabilinu 2004--2008, eins og fram hefur komið.

Lagt er til að komið verði á heildstæðu neti verndaðra fuglasvæða með alþjóðlegt verndargildi. Lögð verður áhersla á að vinna að verndun tveggja af stærstu bjargfuglabyggðum landsins en það eru Látrabjarg -- Rauðisandur og Vestmannaeyjar. Einnig að koma á neti friðaðra svæða til að stuðla að verndun tveggja tegunda sjaldgæfra fugla, þ.e. flórgoða og hafarnar, tveggja tegunda fargesta, þ.e. margæsa og rauðbrystinga og að lokum heiðagæsa. Þau svæði sem talin eru mikilvæg til að stuðla að verndun þessara fugla eru Álftanes -- Akrar -- Löngufjörur, en það eru mikilvæg varpsvæði hafarnarins svo og margæsa og rauðbrystinga sem hafa viðdvöl hér á landi. Álftanes -- Skerjafjörður er mikilvægt fyrir margæs og rauðbrysting. Lagt er til að svæði í Austara-Eylendinu og í Öxarfirði verði verndað vegna mikilvægis þess fyrir flórgoða sem er á válista. Nái verndunin fram mun um 80% flórgoðastofnsins eiga öruggt varpland. Í Guðlaugstungum -- Árnestungum verpa allt að 2000 pör heiðagæsa og telst svæðið alþjóðlega mikilvægt varpland fyrir tegundina.

Ég legg einnig til að unnið verði að stækkun núverandi þjóðgarða, þ.e. í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli. Lagt er til að þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum verði stækkaður um allt að 78 ferkílómetra þannig að hann myndi samfellda heild um gljúfrin. Stækkunin nái einkum til lands austan við núverandi þjóðgarðsmörk þannig að Meiðavallaskógur, nærliggjandi svæði við norðvesturmörk hans og landræma sunnan núverandi marka verði innan þjóðgarðs. Einnig að þjóðgarðurinn í Skaftafelli verði stækkaður um nálægt 730 ferkílómetra svo að hann nái yfir allan Skeiðarársand til sjávar.

Einnig er kveðið á um það í þáltill. að áfram verði unnið að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og verndarsvæða sem munu tengjast honum á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá 26. september árið 2000.

Að lokum legg ég til að unnið verði að verndun nokkurra svæða þar sem er að finna sjaldgæfar plöntutegundir, náttúrulegan birkiskóg og sérstæðar jarðmyndanir. Svæðin Látraströnd -- Náttfaravík og Njarðvík -- Loðmundarfjörður hafa mikið verndargildi vegna þess að þetta eru þau tvö svæði á landinu þar sem flestar tegundir sjaldgæfra plöntutegunda er að finna. Einn skógur varð fyrir valinu en það er Vatnshornsskógur í Skorradalshreppi, en hann er lítt snortinn gamall birkiskógur. Tvö svæði voru valin vegna þess að þar er að finna mikilvægar jarðfræðiminjar en það eru Geysir í Haukadal, en brýnt er að koma verndun hans í örugga höfn, og Reykjanes -- Eldvörp -- Hafnaberg, en það svæði er einstakt á heimsvísu. Þar má sjá framhald úthafshryggs á þurru landi þar sem tvær jarðskorpuplötur gliðna í sundur.

Ég tel mikilvægt að það sé alveg skýrt að framkvæmd málsins eftir umfjöllun á Alþingi mun taka mið af umfangsmiklu samráði við viðkomandi landeigendur, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila. Verndun eða friðlýsing svæðis krefst töluverðrar undirbúningsvinnu ef tryggja á að verndunin skili árangri. Hana þarf að vinna í sem mestri sátt við heimamenn og hún þarf að falla sem best að áætlunum um aðra landnotkun.

Samkvæmt náttúruverndarlögum skiptast friðlýst svæði í fimm flokka eftir eðli, tilgangi og markmiði verndunar. Það eru þjóðgarðar, friðlönd, náttúruvætti, tegundir lífvera og búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi og fólkvangar.

Í einstökum friðlýsingum eru settar reglur um landnotkun eftir því hvaða áhrif hún hefur á hið verndaða svæði. Verndun svæðis vegna einstakra lífvera og líffræðilegrar fjölbreytni þarf þannig að fullnægja þörfum viðkomandi tegunda til vaxtar og viðkomu en um leið er hægt að stunda aðra landnotkun sem ekki fer gegn markmiðum verndunarinnar. Stofnun þjóðgarðs er í eðli sínu þannig að nokkuð strangar reglur gilda um aðra landnotkun þar sem meginmarkmið með stofnun þjóðgarða er að veita fólki aðgang að svæðum þar sem náttúra landsins fær að þróast eftir eigin lögmálum án verulegrar íhlutunar mannsins. Á öðrum svæðum þarf friðlýsing ekki að koma í veg fyrir aðra landnotkun ef hún gengur ekki í berhögg við tilgang og markmið verndunarinnar.

Mikilvægt er að hafa í huga að vinna við undirbúning friðlýsinga verður í höndum Umhverfisstofnunar sem lögum samkvæmt er að gera drög að verndunarákvæðum og leggja fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Í drögunum verður afmörkun svæðanna nánar útfærð en gert er í þeirri náttúruverndaráætlun sem nú er til umræðu og þar verða skilmálar settir fram og útfærðir.

Vinna við drög að verndun svæðis mun krefjast mikils samráðs við landeigendur, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila. Áhersla verður lögð á að kynning og samráð fari eins snemma af stað og hægt er og skilgreindir verði þeir aðilar sem telja sig hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Mikil áhersla verður lögð á að sátt náist um verndunina enda er það grunnurinn að því að hún nái þeim markmiðum sem að er stefnt.

Ég vil leggja áherslu á að einn helsti ávinningurinn af gerð náttúruverndaráætlunar er að lögð er fram skýrari og heildstæðari stefnumörkun við náttúruvernd á grundvelli faglegra sjónarmiða en sést hefur fyrr. Annar ávinningur er efling lýðræðislegrar umræðu um náttúruvernd og framkvæmd hennar. Metinn hefur verið lauslega kostnaður við framkvæmd náttúruverndaráætlunar fyrir þau 14 svæði sem áætlunin tekur til. Heildarstofnkostnaður er áætlaður um 148 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður um 32 millj. kr. þegar verndun allra 14 svæðanna lýkur. Kostnaðaráætlunin tekur ekki til kostnaðar vegna framkvæmda við Vatnajökulsþjóðgarð og tengdra svæða en áætlanir um kostnað vegna þess liggur ekki fyrir.

Síðasta sumar skoðaði ég nær öll svæðin 75 sem eru í tillögu Umhverfisstofnunar, eins og áður sagði, og ræddi við hagsmunaaðila. Miklar umræður voru einnig um drög að náttúruverndaráætlun á umhverfisþingi sem haldið var á haustdögum. Mín tilfinning, virðulegur forseti, er sú að almennt séu menn jákvæðir og fagni þeirri umræðu sem tillaga að náttúruverndaráætlun 2004--2008 hefur skapað.

Virðulegur forseti. Ég hef farið yfir meginþætti till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2004--2008 og legg til að þáltill. verði að lokinni fyrri umr. vísað til síðari umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.