Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:35:14 (3760)

2004-02-03 14:35:14# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. umhvrh. hefur lýst því að það plagg sem hún leggur hér fram sé stefna. Mér finnst þetta plagg að mörgu leyti gott. Mér finnst tímabært að unnið sé með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur lýst.

Sum af þeim svæðum sem kunna að verða friðlýst eða lögð undir þjóðgarða gætu í framtíðinni kallað á sérstök lög en hér er um stefnu að ræða. Ég er, eins og hæstv. ráðherra og margir hv. þm. vita, ákafur stuðningsmaður þess að land sé tekið frá og gert að þjóðgörðum.

Fyrir liggur að ég og nokkrir aðrir háttvirtir þingmenn störfum í sérstakri nefnd sem hæstv. ráðherra skipaði til að gera tillögur um þjóðgarð norðan Vatnajökuls. Margt bendir til að sú nefnd ljúki störfum á allra næstu vikum. Það verður a.m.k. örugglega, að því er ég hygg, áður en þetta þing lýkur störfum. Það er jafnframt ljóst að þessi metnaðarfulla áætlun verður ekki samþykkt af þinginu fyrr en undir lok þessa þingvetrar.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Ef það fer svo, sem ég lýsi hér sem skoðun minni, að nefnd hæstv. ráðherra um þjóðgarð norðan Vatnajökuls skili af sér á næstu vikum, mundi hún þá vera reiðubúin til að greiða fyrir því að í meðförum þingsins yrðu þær tillögur teknar upp í stefnumótunina sem birtist í lokagerð þessa plaggs þegar þing hefur um það vélað?

Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra hefur sagt að það þurfi að öllum líkindum sérlög um það svæði. Ég leggst alls ekki gegn því. En hér er um stefnumótun að ræða og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort þær tillögur gætu komið inn í þessa áætlun sem hluti af þeirri framtíðarsýn sem ráðherrann skilur eftir sig.