Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:39:21 (3762)

2004-02-03 14:39:21# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að að öllum líkindum og örugglega muni þessu þingi ekki gefast tóm til að setja lög sem byggjast mundu á tillögum sem hugsanlega koma frá þeirri nefnd sem vélar um svæðið norðan Vatnajökuls. En hæstv. ráðherra hefur í svari við spurningum frá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni lagt þunga áherslu á að hér sé um stefnumótun að ræða. Hæstv. ráðherra á t.d. eftir að semja við sveitarfélög í kjördæmi sínu sem hafa yfir mikilvægum fjörum að ráða sem eru griðlönd tiltekinna fuglategunda.

Það sem ég er að segja er að það ætti a.m.k. með einhverjum hætti að taka inn í lokagerð þessarar áætlunar skýra vísun í þau lönd sem nefndin vill leggja undir þjóðgarð norðan Vatnajökuls, svo fremi sem ráðherra verður því sammála.

Ég hygg, virðulegi forseti, að okkar öflugu talsmenn í umhverfismálum muni fara mjúkum og jákvæðum en þó gagnrýnum höndum um þessa tillögu og það er hugsanlegt að við munum gera viðaukatillögur sem mundu lúta að slíku.