Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:40:34 (3763)

2004-02-03 14:40:34# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:40]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tillögu þeirri sem við fjöllum um hér kemur fram í III. lið, Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, að áfram verði unnið að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og verndarsvæða sem munu tengjast honum á grundvelli ályktunar Alþingis. Stefnumótunin er því sú að við höldum að sjálfsögðu áfram með það mál og leggjum áherslu á að það sé í forgangi ásamt hinum 14 svæðunum.

Ég býst við því að hv. þm. sé að vísa til þess hvort hægt sé að tilgreina það svæði með einhverjum mörkum. Ég á erfitt með að segja hvort það er hægt eða ekki, það fer eftir því hve sammála nefndin verður í niðurstöðu sinni og hve mikil samstaða skapast um slík mörk á þinginu. Sjálfsagt getur umhvn. skoðað það í umfjöllun um málið þegar það kemur inn í umhvn.

En ég bíð mjög spennt eftir tillögum þessarar nefndar og á von á að þær verði góðar, miðað við það sem ég hef heyrt hingað til.