Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 14:46:04 (3766)

2004-02-03 14:46:04# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Samráðið er út af fyrir sig gott og gilt og hagsmunaaðilar eru sjálfsagðir í því samráðsferli en ég lít hins vegar ekki svo á að náttúrustofur séu í eðli sínu samráðsaðilar eða hagsmunaaðilar eins og t.d. veiðiréttarfélög sem áðan voru nefnd til sögunnar. Náttúrustofurnar eru vísindastofnanir sem starfa úti á vettvangnum, sem starfa úti í byggðunum. Að mínu mati er það algjör grundvallarspurning hvort það sé hugmyndin að náttúrustofurnar fái þetta eðlilega hlutverk, hið vísindalega hlutverk, hlutverk sem mér sýnist að að öðru leyti sé falið Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun. Ég vil láta það koma mjög skýrt fram og ég lét það koma fram í mínum þingflokki að ég er eindregið þeirrar skoðunar að þarna eigi að auka vægi náttúrustofanna og að þær eigi að hafa þetta vísindalega hlutverk, þær eigi að hafa þetta eftirlitshlutverk. Það er langsamlega lógískast. Ef við viljum á annað borð byggja upp þessa vísindalegu þekkingu úti um landið sem ég hygg að við viljum langflest gera verðum við auðvitað að skapa þessum stofum eðlileg verkefni og það gerum við með því t.d. að fela þeim stór verkefni á borð við þau að hafa afskipti af náttúruverndaráætlun þeirra.