Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 15:02:11 (3772)

2004-02-03 15:02:11# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mál það sem við ræðum hér, till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2004--2008, er mál sem lengi hefur verið beðið eftir í þingsölum. Samkvæmt 66. gr. náttúruverndarlaga átti að leggja fram þessa náttúruverndaráætlun árið 2002. Það hefur tekið lengri tíma og hér hefur hún litið dagsins ljós og ég vil taka það fram að ég get fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fagnað þessu blaði. Þessu blaði segi ég, þetta er doðrantur upp á um 300 síður. Þetta eru tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar, náttúruverndaráætlun 2004--2008. Hér í er, má segja, nokkurs konar banki af þeim svæðum sem okkar besta fagfólk telur að njóta eigi friðlýsingar í náttúru Íslands.

Við erum hins vegar ekki að fjalla um þetta plagg í heild sinni, heldur erum við að fjalla um þessa tillögu. Þetta er tillaga hæstv. umhvrh. að 14 svæðum sem skuli vera undirbúin til friðlýsingar á næstum fjórum árum. Þau eru plokkuð út úr þessu stóra riti hér og um þetta plagg má ýmislegt segja. En í heildina fagna ég þeirri vinnu sem búið er að leggja í þetta mál allt saman. Mér finnst alveg til fyrirmyndar að fletta í gegnum þetta mikla rit og að hér getum við haft á einum stað lýsingar á þeim svæðum sem helst koma til greina að verði friðlýst á Íslandi.

Ég nota óhikað orðið friðlýst og friðlýsing og ég harma það að hæstv. umhvrh. skuli vera hrædd við nota það orð því ég held nefnilega að við eigum að taka upp orðræðu sem er skýr, hrein og bein og gengur ansi langt. Ég viðurkenni það að orðið friðlýsing er sterkt orð og það gefur ákveðna mynd í hugum okkar þegar við notum það. En það er mynd sem mér finnst rétt að við framköllum þegar verið er að tala um friðun þeirra svæða sem dýrmætust eru talin í náttúru Íslands. Ég vil ekki að við lítum á friðlýsingar sem eitthvert stundarfyrirbæri þar sem hægt er að færa friðlandsmörk til og frá eftir ,,smag og behag``, svo slett sé á norrænum tungumálum, enda hafa þau verið okkur þingmönnum töm nú síðustu daga í heimsóknum norrænna þingmanna.

Áður en ég fer í það, virðulegi forseti, að skoða hér einstakar tillögur sem liggja fyrir í tillögu hæstv. ráðherra langar mig til að segja að það umhverfi sem Framsfl. og Sjálfstfl. hafa búið okkur á þessari eyju elds og ísa, þessari náttúruperlu í Norðurhöfum, er með þeim hætti að nýtingarsjónarmið hafa ævinlega haft forgang fram yfir verndarsjónarmið. Og nýtingarsjónarmið þessara flokka eru sannarlega ekki alltaf og sjaldnast í samhljómi við þær skyldur sem okkur eru lagðar á herðar af heimsbyggðinni og samfélagi þjóða, það er að varðveita og vernda þau náttúruauðæfi sem fólgin eru í óraskaðri náttúru Íslands. Ég minni á að við höfum fengið hér til umsjár svæði sem eru einstök frá náttúrunnar hendi á heimsmælikvarða og berum þess vegna alheimsábyrgð á vernd þeirra, viðgangi og varðveislu.

En sjónarmið þeirra flokka sem setið hafa við stjórnvölinn undanfarin ár hafa verið nýtingarsjónarmið og að mér finnst afdönkuð sjónarmið iðnbyltingarinnar um orkufrekan iðnað, og hafa þessir flokkar það á samviskunni að hafa selt stórnotendum raforku sál sína og landið með og það fyrir lítinn pening. Nýtingarsjónarmið af því tagi sem hér hafa verið ráðandi í stjórnartíð þessara flokka og þessarar ríkisstjórnar, já reyndar kannski lengra aftur þegar grannt er skoðað en á seinni árum hefur málið þó horft aðeins öðruvísi við, sú stóriðjustefna sem hér hefur verið rekin hefur stungið meira í augun en ella vegna þess að náttúruverndarsjónarmið hafa orðið æ háværari í umræðunni, æ almennari og alþjóðasamningar sem leggja okkur skyldur á herðar hafa orðið virkari og sýnilegri. Umræðan um náttúruvernd á alþjóðlegum vettvangi hefur vaxið til muna bara á síðustu tíu árum frá því að umhverfisfundur Sameinuðu þjóðanna í Ríó var haldinn.

En þegar svona stóriðjusinnuð stjórnvöld eru, mér liggur við að segja þvinguð með lagafyrirmælum til að fara að sinna náttúruverndarmálum, og þá er ég að tala um lagafyrirmælin í náttúruverndarlögunum um náttúruverndaráætlunina, þá fer auðvitað ekki hjá því að menn leggi sérstaklega við eyrun til þess að athuga hvort tónlistin sé nú fögur hér eða hvort hér séu falskir hljómar, hvort eitthvað sé hér hjáróma eða hvort tónarnir séu hljómmiklir og tærir.

Margt sem sagt hefur verið í aðdraganda þessarar náttúruverndaráætlunar og skrifað er í inngang hennar er með þeim hætti í mínum huga að mér finnst ekki þurfa neinar leikfimiæfingar til þess að tortryggja þann ásetning sem hér er látið í veðri vaka að stýri för. Mér finnst allt of mikil áhersla, bara strax í inngangi þessarar áætlunar, vera lögð á nýtingarsjónarmið, á efnahagslegan ábata af nýtingu náttúruauðlinda, og það hvarflar óneitanlega að manni að inngangurinn sem fylgir þessari náttúruverndaráætlun úr hlaði, og þá er ég að tala um hina þykku bók, gæti nánast allt eins verið skrifaður í iðnrn. Og mér finnst það ámælisvert hvernig hæstv. umhvrh. hefur innleitt orðræðu í náttúruverndarmálum sem mér finnst vera mun meira við hæfi iðnrh. en hæstv. umhvrh.

Ég hef oft brýnt hæstv. umhvrh. úr þessum stóli að vera meiri andófsmaður í ríkisstjórninni, standa oftar og betur upp sem málsvari náttúrunnar sem getur ekki talað fyrir sig sjálf.

Ég fagna því að hæstv. umhvrh. skuli hafa í fjölmiðlum síðastliðið sumar oft látið í sér heyra um þau svæði sem hún skoðaði í fylgd embættismanna sinna. Það var virkilega gaman að heyra og finna hvernig hún var uppveðruð af fegurð og mikilfengleik þeirra svæða sem búið var að tilnefna í þessari náttúruverndaráætlun, og þó svo að ég virði alveg þann vilja og þá tilfinningu vil ég samt meina að hér sé fullt af spurningum og vangaveltum sem þarf að hafa uppi.

Ég spyr t.d., og mér finnst það vera mjög veigamikil spurning og mín sjónarmið eru þess eðlis: Hvers vegna í ósköpunum leyfði hæstv. ráðherra sér t.d. ekki þann munað í þeim tillögum sem hún leggur hér fram að leggja það til að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað og forðað þannig frá óþolandi ásælni Landsvirkjunar í þá náttúrugersemi? Í framhaldi af því og í sama orðinu langar mig að segja, af því að ég sé að tími minn er á þrotum, ég á eftir að koma hér aftur í síðari ræðu, en megingagnrýni mín á þetta plagg er sú að hér er hvergi nokkurs staðar stigið litlu tá inn á svæði sem maður getur talið að séu hagsmunasvæði orkufyrirtækjanna. Ég hefði viljað sjá hæstv. umhvrh. ganga miklu lengra í plaggi sínu og leyfa sér að voga meiru en hún í raun hefur gert.