Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 15:13:16 (3774)

2004-02-03 15:13:16# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri hér þakka fyrir það og fagna því að till. til þál. um náttúruverndaráætlun er komin fram og þó fyrr hefði verið. Það hefur legið alllengi fyrir að slíka áætlun ætti að undirbúa og leggja hér fram með reglubundnu millibili eins og lög mæla nú fyrir um og hafa gert um nokkurt árabil.

Allra fyrst verð ég þó að segja að ég er svolítið hugsi yfir þeim umræðum sem hér hafa farið fram um orðið friðlýsingu. Það er eins og menn séu eitthvað að reyna að bakka út úr því að friðlýsing sé friðlýsing. Þetta er það sem ég best veit skýrt, lögformlegt hugtak sem vísar til tiltekinna aðgerða og tiltekins lagaramma sem á ekki að vera neitt feimnismál að ræða um. Það stendur hér skýrum stöfum í sjálfri tillögugreininni, í hausnum: ,,Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu fjórtán svæða á landinu ...`` Og ég held að menn eigi ekkert að vera að reyna að draga hér eitthvað úr gildi þess sem þarna á að fara að gera. Það á að fara að friðlýsa þessi svæði með því sem í því er fólgið samkvæmt lögum og reglum.

[15:15]

Ég tel að sú undirbúningsvinna sem liggur til grundvallar tillögunni sé afar verðmæt og ég hef áður, bæði á umhverfisþingi og víðar, látið það koma fram að mér finnst mikill fengur að því sem hér hefur verið dregið saman og tel að þær stofnanir sem þar hafa lagt hönd á plóginn, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands, eigi heiður skilinn fyrir. Mikil vinna liggur að baki hjá stofnununum og er þeim þó þröngur stakkur skorinn eins og við vitum, sérstaklega Náttúrufræðistofnun Íslands sem hefur alls ekki fengið þær fjárveitingar sem hún hefði þurft til þess að geta sinnt sínum verkefnum eins og æskilegt væri. Engu að síður hefur tekist að vinna mjög mikla og gagnlega undirbúningsvinnu sem er til staðar þegar og ef hugur manna stendur til þess að gera metnaðarfulla hluti í þessum efnum.

Hitt er svo annað, og þar tek ég undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að tillagan sem síðan lítur dagsins ljós er metnaðarminni, eða ekki eins metnaðarfull og maður hefði gjarnan viljað sjá. Það tekur til þess að fleiri og stærri svæði hefðu að mínu mati mátt vera með og sérstakrar feimni virðist hafa gætt við að færa sig inn til landsins. Það er mjög góðra gjalda vert að vernda dýrmæt fuglafriðunarsvæði eða gróðurlönd úti við ströndina, með einni undantekningu helst þar sem eru Guðlaugstungur. En það stingur í augu að það skuli engar af perlum miðhálendisins sem ekki eru nú þegar friðlýstar með einhverjum hætti hljóta náð fyrir augum umhvrh. eða ríkisstjórnarinnar sem ber ábyrgð á tillögunni. Ég gæti t.d. nefnt svæði norðanvert á miðhálendinu, bæði norðan Vatnajökuls, Hofsjökuls og víðar. Svæði umhverfis Langjökul og fleiri hefði að mínu mati mátt skoða þarna.

Ég vil minna á það, virðulegur forseti, að fyrir Alþingi og í umhvn. liggur tillaga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum sem ég flyt ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Tillagan var rædd fyrir jólaleyfi og fékk mjög góðar undirtektir og eindreginn stuðning þeirra sem tóku þátt í umræðunni. Ég hygg að menn úr öllum eða a.m.k. flestum flokkum hafi tjáð sig. Ég treysti því að umhvn., sem fær væntanlega tillöguna til umfjöllunar, líti á málin öll í samhengi, þar á meðal þessar tillögur sem ærin ástæða er til að ætla að bullandi þingmeirihluti sé fyrir. Þá á auðvitað að leiða hann í ljós og láta slíkt mál fá afgreiðslu. Það gæti gerst annaðhvort með því að það yrði fellt inn í þessa tillögu eða með því, sem einnig er á dagskrá, að nefnd skili af sér tillögum um þjóðgarð eða verndarsvæði norðan Vatnajökuls sem reyndar hefur teygt sig dálítið í kringum Vatnajökul í því starfi. Þar er vissulega Jökulsá á Fjöllum og allt sem tengist Vatnajökli beint, mjög undir, og þó fyrr hefði verið, herra forseti, að það komist á dagskrá í íslenskri náttúruvernd að friðlýsa vatnsföll og vatnasvæði.

Ef það er eitthvað sem ég á sérstaklega að gagnrýna tillöguna fyrir, og upp að vissu marki undirbúningsvinnuna, finnst mér of lítill gaumur hafa verið gefinn að því að taka til skoðunar sem sjálfstæðan þátt að friðlýsa vatnsföll, vatnasvæði og vatnasvið með sínum náttúrulegu rennslisháttum. Það hefur verið stórt gat í umfjöllun um þá hluti hér, allt of mikið, að menn hafa ekki látið vatnsföllin í sínum eigin rétti og af sínu eigin gildi fá nægjanlega athygli. Þetta hafa aðrar þjóðir gert fyrir lifandis löngu þar sem menn hafa að vísu kannski verið stórtækir í því að stífla ár og veita þeim til. Það er langt síðan Svíar ákváðu að þau fjögur stærstu vatnsföll sænsk sem enn renna ótrufluð til sjávar án virkjana, skipaskurða eða timburfleytingarmannvirkja, eða annarra slíkra hluta sem hafa á einhvern hátt raskað þeim, verði ekki snert. Þetta mættum við Íslendingar taka okkur til fyrirmyndar því það gengur á þann stokk sem við eigum yfir höfuð til þess að vernda óraskaðan og í sinni náttúrulegu mynd. Þó að við höfum valið að flytja sérstaklega tillögu um Jökulsá á Fjöllum, og fyrir því eru auðvitað ærin rök, er síður en svo ekki ástæða til að skoða fleiri vatnsföll og vatnasvið með sama hugarfari, t.d. að velja verðmætustu tegundir mismunandi vatnsfalla, þ.e. jökuláa, lindáa og dragáa og friðlýsa þær eftir flokkum sem slíkar. Þá blasir við að Jökulsá á Fjöllum hefur, að Jökulsá á Dal raskaðri, langmest verndargildi allra jökulánna og reyndar tengjast henni stórmerkilegar lindár. Þar má því slá margar flugur í einu höggi. Síðan þarf að friðlýsa dragár sem fá þá að halda sínu náttúrulega eðli með vatnavöxtum og tilheyrandi látum og þorna aftur upp á sumrin.

Það bar á góma í umræðum áðan starf nefndarinnar um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls og hvort það mundi ná að fléttast inn í þá vinnu sem er á döfinni. Ég held að það sé ósköp einfalt svar við því. Umhvn. hlýtur að skoða stöðuna eins og hún verður á vordögum þegar að því kemur að afgreiða áætlunina og taka allt inn í hana sem á þangað erindi eftir því sem efni standa þá til.