Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 15:21:45 (3775)

2004-02-03 15:21:45# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., SKK
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Mig langar til að segja nokkur orð um þessa ágætu tillögu sem hér er til umfjöllunar um náttúruverndaráætlun 2004--2008 og friðlýsingu 14 svæða á landinu, en þó ætla ég að víkja að aðeins öðrum þáttum en aðrir hv. þm. hafa vikið að í umræðunni.

Ég lýsi því fyrir mína parta að mér finnst áætlunin góðra gjalda verð, plaggið vera metnaðarfullt og það markmið sem á að nást er náttúrlega mikilvægt, náttúruverndin. Eins og komið hefur fram er um áætlun að ræða eða stefnu eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir sagði áðan, stefnu til framtíðar í náttúruverndarmálum.

Af lestri áætlunarinnar og við skoðun á málinu kemur í ljós að náttúruverndaráætluninni er ætlað að ná til stórra svæða og ég geri ráð fyrir að friðlýsingin muni m.a. ná til svæða sem teljast til eignarlanda. Það kemur reyndar fram þegar farið er yfir áætlunina að það er sundurliðað að einstakar jarðir þarna eða svæði eru í einkaeigu.

Það er líka rétt að friðlýsing þýðir kannski ekki, eins og komið hefur fram, að það megi ekkert gera á þeim svæðum sem undir friðlýsinguna falla og tillagan eða áætlunin nær til. Ég tel hins vegar ljóst að ef áætlunin verður samþykkt eins og hún er og ef henni verður framfylgt sem stefnu til framtíðar, get ég ekki betur séð en með slíku yrði hún til þess að réttindi landeigenda, sem falla undir náttúruverndaráætlunina, yrðu skert. Þá á ég við að nýtingarréttur þeirra á eignarlöndum sínum yrði að einhverjum hluta skertur.

Eignarlönd njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Þá á ég ekki einungis við landið sem slíkt, þ.e. gróðurinn, moldina og grjótið heldur heyra einnig undir eignarréttarákvæðin ýmis hlunnindi, veiðihlunnindi, ítaksréttur og svo mætti lengi telja. Slík réttindi verða ekki tekin af þeim landeigendum sem undir náttúruverndaráætlunina heyra nema með bótum.

Það er ljóst eins og fram hefur komið og ég rakti áðan að hér er um áætlun eða stefnu að ræða. Eins og fram kom í ræðu hæstv. umhvrh. má gera ráð fyrir því að henni verði fylgt eftir með lagasetningu, en ég tel mjög mikilvægt að því sé haldið til haga í umræðunni að réttindi þeirra sem eiga eignarlönd og falla undir þáltill. verði tekin til skoðunar. Það væri mjög upplýsandi fyrir mig og þingið að fá upplýsingar um hvernig hæstv. ráðherra hyggst bregðast við þessum athugasemdum og taka á réttindum landeigenda, verði tillagan að stefnu sem fylgt verður til framtíðar.