Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 15:28:15 (3777)

2004-02-03 15:28:15# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að það sé rétt að sú vernd sem við erum að tala um eða friðlýsing geti leitt til þess að eignarlönd í einkaeigu verði verðmætari með því að þau verði friðlýst, það getur vel verið. Það getur líka vel verið að með friðlýsingunni verði gengið á stjórnarskrárvarinn rétt landeigenda og ég varpa þessari spurningu fram í umræðunni vegna þess að það er raunhæfur möguleiki að svo geti orðið. Ég nefndi það í ræðu minni að eignarrétturinn verndar ekki einungis landskikann sem slíkan heldur einnig ýmis hlunnindi, ítaksréttindi, veiðirétt og fleira sem fylgir eignarréttinum. Hann kann að verða skertur verði tillagan samþykkt og eftir áætluninni unnið.

Ég bendi á að hér er verið að friðlýsa ýmis svæði þar sem fuglalíf er mikið og blómstrandi og það má vel vera að með slíkri friðlýsingu komi til þess að veiðiréttur eignarréttarhafa á þeim svæðum skerðist. Þess vegna varpa ég fram þessari spurningu: Hefur hæstv. ráðherra svör við því hvernig við slíkri skerðingu verður brugðist, þ.e. ef hún er á annað borð til staðar? Ég er ekki að segja að svo sé. Ég er að segja að það sé raunhæfur möguleiki að slík skerðing geti verið fyrir hendi og varpa því þessu atriði fram í umræðunni vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir þá landeigendur sem í hlut eiga.