Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 15:38:54 (3779)

2004-02-03 15:38:54# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Það voru nokkur atriði sem ég átti eftir að nefna í þessari umræðu, atriði sem mig langar að draga upp í síðari ræðu minni. Fyrst langar mig þó til að segja það að umhverfisþingið sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vitnar títt í hér, svo snautlegt sem það var, var haldið á mjög afleitum tíma fyrir þingmenn. Ég var ein þeirra sem voru í fullum önnum í þinginu við að flytja þingmál í gríð og erg meðan þessar umræður stóðu sem hv. þm. getur um og ég ætla bara að nota tækifærið og ýta enn á hæstv. umhvrh. með það að passa sig betur í tímasetningum á slíkum þingum. Umhverfisþingið er auðvitað afskaplega þýðingarmikið í allri umræðu um náttúruvernd og það er mjög þýðingarmikið að bæði starfandi fólki og ekki síður þingmönnum og frjálsum félagasamtökum sé gert kleift að sækja þennan umræðuvettvang. Sannleikurinn er sá að það var haldið í miðri viku á vinnutíma fólks og þeir sem sátu þetta þing voru fyrst og fremst embættismenn, opinberir starfsmenn og starfsmenn orkufyrirtækjanna. En ekki náttúruverndarsamtök eða t.d. þingmenn umhverfisnefndar sem, eins og ég segi, voru margir hverjir hér í miklum önnum. Við verðum að sjá til þess að hugmyndafræði okkar gangi upp í verkum okkar. Ef það er hugmyndafræði okkar að hér verði opin og skapandi umræða um náttúruverndarmál verðum við líka að gera hana þannig úr garði, búa hana þannig út, að það sé í alvöru grundvöllur og jarðvegur til þess að fólk taki þátt í henni.

Þessi náttúruverndaráætlun hefur verið opin til umfjöllunar. Fólki var gert mögulegt að gefa umsagnir þegar drögin voru birt í maí. Þá gat fólk sent inn umsagnir. Og ég fagna því. Mér þykir gott að umhvrn. skyldi viðhafa slík vinnubrögð. Svo veit ég náttúrlega að við eigum eftir að fá umsagnir frá umhvn. líka sem trúlega eiga eftir að verða margar og efnismiklar varðandi einstök svæði.

Ég var í ræðu minni áðan komin inn á hagsmuni orkufyrirtækjanna og ég lét í ljósi leiða yfir því að hæstv. umhvrh. skyldi ekki leyfa sér meira í þeim efnum, að fara inn á svæði sem orkufyrirtækin ásælast. Mér finnst alveg sjálfsagt að sá aðili í ríkisstjórninni sem er málsvari náttúrunnar hafi uppi andóf í þeim efnum og reyni allt hvað hún getur til að sjá til þess að hagsmunir náttúrunnar séu í fyrirrúmi, en ekki sé stöðugt lúffað fyrir hagsmunum orkufyrirtækjanna. Ég vona að hæstv. ráðherra svari því hér hvers vegna í ósköpunum ekki hafi verið lagt til í þáltill. að Þjórsárverafriðlandið yrði stækkað. Í tillögu Umhverfisstofnunar er gerð sérstök grein fyrir því að áhugahópur um friðun Þjórsárvera hafi gert tillögu um það eða komið fram með hugmynd um að friðlandið skuli stækkað og í náttúruverndaráætluninni, þessum 300 blaðsíðum sem Umhverfisstofnun skilaði af sér, er gert ráð fyrir því að sú leið verði farin, sama leiðin og áhugahópurinn um verndun Þjórsárvera leggur til. Og ég vil fá að heyra rök hæstv. ráðherra fyrir því hvers vegna ekki var farið eftir þeirri tillögu sem þar var tíunduð þegar lagt var til að Þjórsárverafriðlandið yrði stækkað. Hvers vegna hleypur ráðherrann yfir þessar blaðsíður, 238 og 239, í stóru tillögunum?

Ég vil líka nefna hér hagsmuni orkufyrirtækjanna vegna jarðhitans. Það er auðvitað afar sárt til þess að vita að það er varla til orðið það háhitasvæði á landinu þar sem ekki er búið að sækja um leyfi til rannsóknarborholu. Við vitum það líka að um leið og farið er að bora á svæðunum er um leið búið að raska þeim. Þetta er að gerast hér og nú beint fyrir framan augun á okkur á 21. öldinni þegar maður hefði haldið að sjónarmið náttúruverndar ættu að vera orðin rótfastari og ofar á dagskránni en raun ber vitni hjá þeim stjórnvöldum sem hér fara með völd. Um leið og bor er kominn inn á háthitasvæði, púðinn undir borinn er settur upp, er búið að raska svæðinu. Við vitum ekkert hvernig okkur tekst að reyna að snúa til baka eða vinda ofan af þeim áhrifum sem ein rannsóknarborhola á háhitasvæði hefur.

Ég hefði viljað sjá fleiri háhitasvæði tilgreind í tillögu hæstv. ráðherra. Ég vil t.d. nefna Grændal og Reykjadal. Ég vil nefna Brennisteinsfjöll og Herdísarvík. Þetta eru t.d. svæði sem Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir að séu þess eðlis að þau beri að vernda. Það hefur nú verið ásælst í Grændal og ég held að ég muni rétt að það hafi verið eini úrskurður Skipulagsstofnunar sem farið var eftir, þ.e. sem var ekki snúið við. Hann var sem sagt þess eðlis að ekki yrði heimiluð rannsóknarborhola inni í Grændal. Ég held að við höfum hér afskaplega gott tækifæri til þess að vernda hann til frambúðar og ég tel fulla ástæðu til.

Ég held að hv. umhvn. þurfi að fjalla um háhitasvæðin sérstaklega og skoða þessi tvö svæði sem ég hef hér nefnt.

Ég get tekið undir orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur hvað varðar landslagsverndina. Það er auðvitað mjög mikilvægt að við tökum á því máli. Það er alveg viðurkennt í stóru skýrslunni að landslagsvernd hafi í sjálfu sér setið á hakanum, við séum styst komin í því að vernda landslag og taka afstöðu til þess hvernig það verði gert. Ég tel að umhvn. eigi að sýna ákveðna viðleitni í þeim efnum, svara því kalli sem manni finnst vera í áætlun Umhverfisstofnunar, þ.e. hvernig ætlum við að fara með landslagsverndina og hvað getum við gert í þeim efnum núna á þessu tímabili, 2004--2008?

[15:45]

Ég held að það megi minna á ekki bara tillöguna sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þ.e. ég ásamt Steingrími J. Sigfússyni, höfum lagt fram um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum heldur höfum við einnig lagt fram tillögu sem liggur fyrir umhvn. til að fjalla um, um stækkun friðlands Þjórsárvera, og ég kem auðvitað til með að óska eftir því í nefndinni að sú tillaga verði tekin til umfjöllunar í tengslum við umræðuna um náttúruverndaráætlun.

Ég vil að það komi fram hér í mínu máli, og það er algjörlega af persónulegum ástæðum, ég fagna því sérstaklega að Rauðasandur skuli vera á tillögu ráðherrans. Ég tel það afar tímabært að Rauðasandur njóti formlegrar verndar og tel þar vera náttúrugersemi á ferðinni sem rétt sé að friðlýsa og sé í raun og veru ekki eftir neinu að bíða með. Rauðasandur og Látrabjarg er svæði sem mér finnst orðið komið að og ég fagna því sérstaklega að það skuli vera hér á tillögu ráðherrans.

Mig langar til að nefna eitt svæði enn sem ég hefði gjarnan viljað sjá hér og það er Gerpissvæðið, en mér hefur skilist á umræðum heimamanna, þessara títtnefndu heimamanna, að það sé í sjálfu sér komið ansi langt í undirbúningi þar eystra að Gerpissvæðið njóti verndar og verði friðlýst. Ég vil því að það verði skoðað sérstaklega í umhvn. hvort kannski sé komið að þeim tímapunkti heima í héraði að vernda Gerpissvæðið.

Ég held að það sé mikið verk að vinna fyrir hv. umhvn. og ég geri ráð fyrir því að fólk hlakki til að takast á við það, því að ég geri ráð fyrir að við höfum öll verið fremur óþreyjufull, verið farin að bíða eftir því að náttúruverndaráætlun liti dagsins ljós.