Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:17:44 (3786)

2004-02-03 16:17:44# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að segja nokkur orð í tilefni af þessari náttúruverndaráætlun.

Hæstv. ráðherra og ýmsir aðrir leggja mikið upp úr því að stækka þjóðgarða svo og svo mikið og vilja fjölga þeim hingað og þangað um landið. Á hinn bóginn liggur það eftir að búa þannig um þjóðgarðana að sómi sé af. Vil ég í því sambandi, hæstv. forseti, benda á þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. Ég lít svo á, miðað við allan þann fjölda ferðamanna sem þar er og miðað við að bundið slitlag er nú komið frá Reykjavík í Öxarfjörð, norður undir Svelting, að búast megi við því að ferðamönnum þar muni fjölga mjög verulega. Voru þó margir fyrir. Á hinn bóginn hefur setið eftir sá hlutur ríkisins að veita nægt fé til að byggja upp viðunandi aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum og líka til þess að hægt sé að gera við þau gömlu hús sem þar eru og hafa vissulega sögulegt gildi og minjagildi, m.a. vegna þess að Sveinn Þórarinsson listmálari var þar á sínum tíma og af ýmsum öðrum ástæðum.

Mér finnst þetta mál ekki eingöngu snúast um að teikna þjóðgarða á landakort til að svara metnaði einstakra ráðherra um að stækka og fjölga þjóðgörðum. Mér finnst þetta líka snúast um hvaða augum við horfum á þjóðgarðana.

Hér hefur verið kvartað undan því síðustu mínúturnar, bæði af hæstv. ráðherra, eins og ég skildi hana, og eins af hv. 8. þm. Reykv. n., Kolbrúnu Halldórsdóttur, að fólk úti á landi skildi ekki hvað fælist í friðlýsingu. Ef land væri friðlýst mætti ekkert gera.

Hvernig skyldi nú standa á því að þetta hafi misskilist? Fyrir norðan mátti t.d. ekki eyða refum eða mink í þjóðgarðinum þannig að þeir sem höfðu tekist það vandasama verk á hendur að fækka þessum skaðræðiskvikindum urðu að gæta sín á að fara ekki yfir einhverja ímyndaða línu. En dýrin eru fljót að finna út slíkar ímyndaðar línur og kunna að haga sér eftir því. Enda kemur það á daginn að fuglalíf er langmest þar sem maðurinn er, þar sem mink og ref er eytt. Í því sambandi mætti nefna að skemmtilegt er t.d. að fara um Melrakkasléttu, að Núpskötlu og sjá hversu skiptir um, þegar komið er í heimahagana eða annars staðar, hvar fuglinn heldur sig.

Svo koma auðvitað upp margvísleg vandamál. Heiðagæsinni fjölgar sem betur fer en á hinn bóginn standa Norðlendingar nú frammi fyrir öðru vandamáli, ef ég skil hlutina rétt. Tveir ernir hafa sést upp á síðkastið í Mývatnssveit en ekki eftir nema 40 pör af húsöndum. Fróðlegt væri að vita hvernig hæstv. ráðherra ætlar að fara í það mál. Húsendur verpa ekki annars staðar en einmitt á þessu svæði, kannski við Sandvatn. En ef þeir taka vel til matar síns, þessir ernir, þá veit maður ekki hvernig fer fyrir húsandarstofninum.

Náttúruverndin er auðvitað góðra gjalda verð en í náttúrunni eins og annars staðar á það við sem sagt var í góðu kvæði forðum:

Eitt rekur sig á annars horn eins og í ræðu eftir Vilhjálm Þorn.

Maður veit því ekki alveg alltaf hvernig bregðast á við.

Ég vildi aðallega vekja athygli á því að það verður að búa betur að þjóðgörðunum en gert hefur verið. Að minni hyggju væri rétt að hafa það fyrsta skrefið frekar en að víkka þá út, stækka þá eða stofna nýja.

Ég vil líka vekja athygli á því að það er vænlegra til þess að auka skilning manna víðs vegar um landið á gildi friðunar og þjóðgarða að þeir séu settir í gæslu heimamanna og heimamenn beri ábyrgð á þeim. Ég held að það sé þarft og nauðsynlegt. Það hefur margkomið í ljós að fjarstýring þjóðgarðanna er ekki holl. Ég vil líka leggja áherslu á að ég álít að rannsóknir innan þjóðgarðanna eigi að vera á ábyrgð stofnunar í héraði sem væri sjálfstæð en ekki fjarstýrt frá Reykjavík. Ég hef lagt áherslu á að Náttúrurannsóknarstöðin í Mývatnssveit verði efld og henni falið þetta hlutverk í Þingeyjarsýslum, þ.e. með því að þeir sem þar vinna búi fyrir norðan, að sú stjórn sem er yfir þeirri stofnun sé skipuð fólki á því svæði, sem hefur áhuga á að vera á því svæði og hefur áhuga á að efla rannsóknir á því svæði. Þar ætti að starfa fólk sem býr þar og vill vera þar og lifa með þeirri náttúru sem það er að rannsaka. Það þarf að skilja hagi og hagsmuni þess fólks sem þar býr. Ég hygg að þannig sé staðið að þessum málum í öðrum löndum. Ég hygg að allir geti verið sammála um að það sé æskilegt.

Á hinn bóginn geri ég mér grein fyrir því að þetta rekur sig á það embættismannaveldi sem hér hefur verið byggt upp syðra. Ég þekki, sem fyrrverandi ráðherra, að við það getur verið erfitt að fást. Það hlýtur þó að vera grundvallarkrafa af hálfu okkar, sem sjáum landið fyrir okkur svo að hvarvetna hafi fólk tækifæri til að hverfa aftur til heimabyggðar sinnar og vinna þar verk, að stuðlað sé að því með eðlilegum hætti.

Menn tala um byggðastefnu. Það er ekki holl byggðastefna að gefa ölmusufé en hitt er holl byggðastefna að þau verk sem falla til á hverjum stað og á hverjum tíma og ríkið kostar séu unnin af fólki á þeim stöðum en ekki úr fjarlægð. Ég held að þetta sé mikið atriði ef við viljum vernda land okkar.

Nú ítreka ég það sem ég hef áður sagt, að það er auðvitað sjálfsagt að vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum og sömuleiðis þeir jöklar sem eru innan þess séu sérstakt verndarsvæði og að rannsókn þess fari fram á Náttúrurannsóknarstöðinni í Mývatnssveit, að til þess verði hugsað að rannsóknarmönnum verði gefinn kostur á að vinna þar eins og á Selfossi og ýmsum öðrum stöðum.