Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:26:04 (3787)

2004-02-03 16:26:04# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef klárað ræðutíma minn undir þessu máli en kýs að svara hv. þm. í andsvari.

Hv. þm. Halldór Blöndal kom aðallega upp, eftir því sem mér skildist, til að ræða um að náttúruvernd snerist ekki um einhverjar línur á korti heldur þyrftum við að byggja myndarlega upp í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Ég deili þeirri skoðun með honum.

Ég hef verið talsmaður þess að þessi svæði hefðu sjálfstæðan tekjustofn. Að öðrum kosti þarf að taka þetta fjármagn af almennu skattfé borgaranna. Sjálfstfl. hefur ekki verið talsmaður skattahækkana og það erum við heldur ekki en ég hef verið talsmaður þess að þarna yrði sjálfstæður tekjustofn. Þá hefur gistináttagjald helst komið til greina af þeim kostum sem ég hef viljað skoða. Ef tekið er gistináttagjald af gistinóttum í landinu mundi það gefa 150 millj. kr., væri það 100 kr. á nótt. Það yrði aldeilis viðbótarinnspýting í að byggja upp þessi svæði og hafa þar öfluga fræðslu, rannsóknir og aðstöðu, sem ég held að við vildum öll gjarnan sjá. Þrátt fyrir að sett hafi verið umtalsvert viðbótarfé á þessi svæði, sennilega yfir 300 millj. kr. á síðasta kjörtímabili, þarf mun meira fjármagn að koma til.

Það væri áhugavert að heyra hvort hv. þm. er tilbúinn að leggja manni lið við að reyna að ná fram gistináttagjaldi sem sjálfstæðum tekjustofni til þessara svæða.