Náttúruverndaráætlun 2004--2008

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:27:55 (3788)

2004-02-03 16:27:55# 130. lþ. 55.3 fundur 477. mál: #A náttúruverndaráætlun 2004--2008# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alltaf viðkvæðið, að það eigi að skattleggja sérstaklega þá sem fara í Ásbyrgi eða í Jökulsárgljúfur. Ég hélt að hv. þm. ætti nú rætur við bakka hins mikla fljóts Skjálfandafljóts og áttaði sig á að það er erfitt að koma því við að ætla að fara að skattleggja Norðlendinga þegar þeir fara í Ásbyrgi eða Jökulsárgljúfur.

Það er ekki verið að tala um að skattleggja þá sem fara á Þingvöll. Borga Norðlendingar ekki skatt eins og aðrir? Ef hugmyndin er að skattleggja Norðlendinga fyrir að fara á sína reiti er þá ekki rétt að koma fyrst upp sæmilegri aðstöðu í Jökulsárgljúfrin? Menn byrja ekki á því að selja það sem ekki er til. Menn byrja ekki á að skattleggja. Þeir byrja á að búa í haginn til þess að hafa eitthvað að selja. Þá held ég að rétt væri að byrja á að koma heitu vatni í Ásbyrgi þannig að þar verði hægt að búa sæmilega að mönnum og skapa skilyrði fyrir lítið hótel eða herbergi, hafa þar sundlaug og þar fram eftir götunum. Það yrði dýrlegur staður, stórkostlegur staður satt að segja.

Það hefur tekist í Mývatnssveit, vegna þess að þar er aðstaða fyrir hendi, að byggja ferðaþjónustu svo upp að það má búast við að ferðamönnum taki að fjölga þegar í þessum mánuði eða í byrjun næsta mánaðar. Ég held að það sé í lok þessa mánaðar. Mývetningar taka þar nokkurt gjald fyrir svæði sem þeir gæta sjálfir. Kannski ríkið vilji þá líka taka skatt af því að menn fari í Dimmuborgir? Er ekki best að landið umhverfis hringveginn verði allt saman með gjaldmælum áður en búið er að koma almennilegri aðstöðu upp fyrir fólk?