Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:37:01 (3792)

2004-02-03 16:37:01# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., Flm. BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:37]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir till. til þál. um eflingu iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum, sem mætti draga saman undir heitinu ,,starfsnám í framhaldsskólum``, en einnig til eflingar og fjölgunar styttri námsbrauta.

Flm. eru gjörvallur þingflokkur Samf. Til að undirstrika það vægi sem þetta mál hefur í stefnu og framsetningu Samf. flytur þingflokkurinn þetta allur, enda er eitt af meginmálum þeirrar framtíðar sem við blasir í menntunarmálum og skólamálum þjóðarinnar að hleypa nýju lífi í og skjóta stoðum undir starfsnám í framhaldsskólum. Það hefur átt verulega undir högg að sækja á undanförnum árum sem dæmin sanna og ég mun koma betur að í framsögu minni á eftir.

Við leggjum hér til að Alþingi álykti að fela starfshópi skipuðum fulltrúum þingflokkanna, Samiðnar, Samtaka iðnaðarins, Iðnnemasambands Íslands, stéttarfélaga framhaldsskólakennara, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandsins og fulltrúa skólastjóra verknámsskólanna að semja tillögur um átak til að efla iðnnám, listnám og verknám í framhaldsskólum og um stofnun nýrra, styttri námsbrauta til starfsnáms.

Meginmarkmið tillögunnar er að draga úr brottfalli nemenda úr framhaldsskólum, eyða úreltri aðgreiningu á milli verknáms og bóknáms, endurskoða samsetningu náms í grunnskólum, efla framhaldsskólastigið markvisst og tryggja nægjanlegt framboð á verkmenntuðu fólki á atvinnumarkaði. Sérstaklega skal endurskoðað reiknilíkanið sem er notað til að deila út fjármagni til framhaldsskólanna.

Herra forseti. Hér er um að ræða einn af merkilegri þáttum og einn af merkustu þáttum í menningu og mannlífi okkar Íslendinga. Það má segja að verknám eða iðnnám, eins og við þekkjum það í dag og ræðum um það, sé á svipuðum aldri og heimastjórnin sem við höfum nú fagnað með miklum veisluhöldum og glæsibrag að sumra mati að sé orðin 100 ára.

Við upphaf 20. aldarinnar tók atvinnulífið hér að breytast með þeim hætti að hinar fjölbreyttustu iðngreinar fóru að skjóta rótum og skjóta upp kollinum, og byggðist iðnnám þeirra daga mestmegnis þó á svokölluðu meistarakerfi. Menn komust á samning hjá iðnmeistara sem fyrir var og lærðu iðnina þar. Svo þróaðist það með tímanum út í að menn sátu kvöldskóla eða styttri helgarnámskeið til að afla sér einhverrar bóklegrar þekkingar á faginu einnig sem var af ákaflega skornum skammti framan af.

En það má samt rekja íslenskt iðnnám lengra aftur í tímann. Í bók Helga Guðmundssonar um sögu Iðnnemasambandsins og iðnnemahreyfingarinnar í 100 ár, sem kom út árið 1998, koma margar forvitnilegar og skemmtilegar upplýsingar fram, t.d. að segja megi að fyrsti iðnneminn íslenski, í okkar skilningi þess orðs, hafi verið Jón Jónsson Matthíassonar prests á Hólum árið 1530. Í kjölfar þess að Jón Arason Hólabiskup færði prentlistina til Íslands má segja að sá mæti maður, Jón Jónsson Matthíassonar, hafi verið fyrsti iðnneminn eins og við ræðum um þá í dag. Þar áður höfðu menn numið handverkið af forfeðrum sínum og foreldrum og vinnufélögum heima á býlum sínum.

Eftir 1530 eru ekki mörg söguleg ártöl í sögu iðnmenntunar á Íslandi en undir lok 19. aldarinnar fara hlutirnir að gerast og má segja að þegar fór að hilla undir nýja tíma í atvinnulífi og starfsháttum Íslendinga hafi menn fljótlega farið að gera tilraunir til að bindast einhvers konar stéttar- og hagsmunasamtökum til að styrkja bönd sín og efla hagsmunabaráttu sína. Eru stéttarsamtök prentara frá 2. janúar 1887 talin fyrstu stéttarsamtök sem iðnaðarmenn gera með sér sem verða svo aftur að Hinu íslenska prentarafélagi árið 1897. Það var mjög öflugt iðnaðarmannafélag og eitt það fyrsta. Prentararnir ruddu sem sagt brautina og voru enda á meðal fyrstu formlegu verkmenntamannanna hér á Íslandi.

Upp úr þessu tóku að skjóta upp kollinum hin ýmsu félög og má segja að fyrsta iðnnemafélagið hafi verið stofnað árið 1898. Það bar hið skemmtilega heiti Lukkuvon og var félag skósmíðalærlinga. Það eru fyrstu iðnnemasamtökin sem vitað er um. Þau tóku svo á sig hið endanlega form árið 1944 þegar Iðnnemasamband Íslands var stofnað formlega, þá með fimm félögum sem aðilum og um 200 félagsmönnum, en á örfáum árum urðu félögin 16 og félagsmenn komnir upp í 600. Árið 1949 voru félögin orðin 23, iðnnemar í samtökunum 1.200 og náðu þá yfir 2/3 allra þeirra iðnnema sem voru í landinu. Uppgangur iðnmenntunar og iðnaðargreinanna, verkmenntagreinanna, var mikill og litríkur á þessum árum og blandaðist mjög inn í flokkastjórnmálin á 2. og 3. áratug síðustu aldar. Má geta þess að Samtök iðnnema voru t.d. meðal þeirra fjögurra aðila sem komu að stofnun Samtaka ungra jafnaðarmanna, svo nátengd voru samtökin flokkastjórnmálum á þeim tíma um þorra ára skeið. Þetta var mjög samofið. Svo börðust vinstri flokkarnir mjög um fylgi þessara samtaka og námsmanna næstu áratugina á eftir þangað til það heillavænlega skref var stigið þegar leið frá seinni heimsstyrjöld að námsmannasamtök skildu við flokkastjórnmálin og tóku á sig form hreinna hagsmunasamtaka félaga sinna og umbjóðenda.

Hér er því um merka og mæta sögu að ræða en undanfarin ár og áratugi hefur hallað verulega undan fæti í iðnnáminu. Það hefur verið hornreka í framhaldsskólakerfi okkar Íslendinga þó að það hafi litið vel út þegar fjölbrautaskólarnir voru stofnaðir, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti árið 1975, Fjölbrautaskóli Suðurlands 1981 o.s.frv. Þá má segja að það hafi verið nokkurs konar ný dögun hjá verkmenntagreinunum þar sem fleiri og öflugri skólar fóru að bjóða nemendum sínum upp á iðn- og verknám með því að samþætta bóknámið og verknámið inn í áfangakerfi sem var metið og sambærilegt á milli skóla. Þá þótti mörgum ástandið ágætt og útlitið gott fyrir verknámsgreinar í íslensku skólakerfi.

Það hefur þó ekki gengið eftir á síðustu árum og hefur iðn- og verknámið verið hornreka í mörgum framhaldsskólum af ákaflega einfaldri ástæðu. Þeir sjá sér ekki fært út frá fjárhagslegum sjónarmiðum að halda iðnnáminu úti. Það er einfaldlega dýrt að gera það, greinarnar oft fámennar, þannig að þetta nám hefur horfið út úr mörgum skólunum. Þar með þjappast margar hinna fámennari greina aðallega á nokkra skóla á höfuðborgarsvæðinu sem kenna þá lungann úr greinunum.

[16:45]

Meginmarkmið þeirrar tillögu sem þingflokkur Samf. leggur fram og mælir fyrir hér í dag, í þeirri brýnu tillögu að efla starfsnámið og fjölga styttri námsbrautum, eru að draga úr brottfalli úr framhaldsskólum, eyða úreltri aðgreiningu á milli verknáms og bóknáms, endurskoða samsetningu náms í grunnskólum, efla framhaldsskólastigið markvisst og tryggja nægjanlegt framboð á verkmenntuðu fólki á vinnumarkaði. Sérstaklega leggjum við til að reiknilíkanið sem ég gat um áðan verði endurskoðað til dreifingar á fjármagni til framhaldsskólanna til að það standi framgangi verknámsins og iðnnámsins alls ekki fyrir þrifum. Við viljum auka aðsóknina að starfsnámi en aðsókn að því hefur minnkað. Eins og fram kom í fréttum í síðustu viku samkvæmt könnun sem gerð var um t.d. þörf á járnsmíðamenntuðu fólki var útlitið þannig að á næstu árum og áratugum yrði skortur á járniðnaðarmönnum á vinnumarkaði svo hundruðum skipti. Lýsti skólastjóri Iðnskólans því í 10-fréttum sjónvarpsins í síðustu viku yfir þungum áhyggjum af því að þessi þekking væri einfaldlega að hverfa út úr íslensku samfélagi, af íslenskum vinnumarkaði.

Svo er hin hliðin á þessu máli. Ef margar iðngreinar, brýnar, sem er mikil þörf fyrir á íslenskum vinnmarkaði, mismikil eftir því hvers konar uppgangur eða hvort er uppgangur í samfélaginu hverju sinni, hverfa og deyja erum við illa stödd. Það er aftur annað vandamál hvað varðar verknámið líka að oft gengur nemendum illa að fá samning hjá iðnmeisturum. Það er vandamál sem margir forsvarsmenn framhaldsskólanna og verkmenntaskólanna benda á að sé ekki síður til trafala viðgangi og uppbyggingu verknámsins og iðnnámsins, þ.e. að námsmönnum sem það vilja stunda gengur illa að komast á samning sem gerir út um að menn geti stundað þetta nám. Samningur hjá meistara er að sjálfsögðu hinn helmingurinn af iðnnáminu.

Við viljum í þessu sambandi að markviss kynning eigi sér stað á kostum starfsnáms og styttri námsbrauta enda mjög mikilvægt að eyða markvisst þeim mun sem hefur myndast á bóknámi og verknámi í hugum allt of margra á undanförnum árum og áratugum. Verknámið var einfaldlega sett skör lægra en bóknámið án þess að það hafi verið ætlun eða vilji nokkurs. Á árum fyrr var stúdentsprófið mjög í hávegum haft, eins og kannski eðlilegt er, og fólk hvatti börn sín og aðstandendur og afkomendur til að stunda frekar bóknám. Heldur var verknámið litið hornauga og naut ekki sannmælis, má segja, þótt þetta sé kannski að breytast aftur, a.m.k. vonandi. Við viljum stuðla að því með uppbyggilegri og jákvæðri umræðu um mikilvægi og gildi starfsnáms, svo og styttri námsbrauta hvers konar sem hafa verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum og notið mikilla vinsælda. Þær brautir gera fólki það ljóst að starfsnám hvers konar er ef menn það kjósa einungis áfangi á lengri vegferð. Með tilkomu, eins og meðflutningsmenn mínir munu koma inn á síðar í umræðunni, Tækniháskóla Íslands eftir því sem við berum gæfu til að efla hann er iðnaðarmönnum hvers konar greiður aðgangur að frekari menntun. Ef þeir vilja bæta við greinar sínar og þekkingu og réttindi er þetta einungis áfangi á lengri leið en þannig öðlast þeir mjög öflug og góð réttindi á lífsleiðinni. Í kynningu á iðnnáminu þarf að leggja megináherslu á að það er ekki andstaða langskólanáms og vinna þarf gegn því hvernig skorið er á milli bóknáms og verknáms.

Það er mikilvægt að samsetning náms íslensku þjóðarinnar verði með þeim hætti að uppbyggingu atvinnulífsins standi ekki fyrir þrifum skortur á tækni- og verkmenntuðu fólki. Samsetningin í dag er þannig að margt fólk er ekki með framhaldsskólamenntun en aftur á móti er skortur á háskólamenntuðu fólki. Það er að verða skortur á tækni- og iðnmenntuðu fólki eins og kom skýrt fram í greiningu Lilju Mósesdóttur sem hún kynnti á ráðstefnu Alþýðusambandsins 30. september 2003 undir yfirskriftinni ,,Atvinna fyrir alla``.

Við fjöllum í greinargerðinni um brottfallið og þann mikla vanda sem það er í skólakerfinu. Dæmi um það kemur vel fram í skýrslu menntmrn. um styttingu náms til stúdentsprófs sem kom út í haust. Þar segir, með leyfi forseta, að: ,,af nemendum á fyrsta námsári í starfsnámi er stærsti hópurinn skólaárið 1997/1998, eða 2.579 einstaklingar, og sá minnsti skólaárið 1993/1994 eða 2.038 einstaklingar. Nemendur sem útskrifast með annað en stúdentspróf eru flestir skólaárið 1997/1998, eða 1.521 einstaklingur, og fæstir 1998/1999 eða 1.390 einstaklingar. Meðalfjöldi nemenda á fyrsta námsári er 2.259 en 1.441 brautskráður nemandi. Sýnir þetta mikinn mun á fjölda þeirra sem hefja starfsnám og ljúka því, eða mismun upp á 36% að meðaltali. Sambærilegur mismunur á fjölda nemenda sem hefja nám á stúdentsbrautum og öðrum bóknámsbrautum og ljúka stúdentsprófi er að meðaltali 58%.``

Þessar tölur tala sínu máli um hve alvarlegt vandamál brottfallið er úr íslenskum framhaldsskólum og komum við kannski síðar að því í umræðunni, enda líður tíminn hratt.

Starfsmenntunin á í margvíslegum vanda sem lýsir sér m.a. í því að aðsókn að náminu hefur minnkað, að mestu leyti er hætt að kenna verklegar greinar á landsbyggðinni og framboð á starfsmenntun hvers konar hefur minnkað í fjölbrautaskólum landsins. Auk þess blasir við skortur á iðnaðarmönnum í einstökum greinum á næstu árum, eins og ég dró fram dæmi um áðan um járniðnaðarmennina, og það mun standa íslenskum iðnaði verulega fyrir þrifum og þar með viðgangi og framrás atvinnulífsins.

Tekjurnar verða til í hinum mörgu greinum iðnaðar: stóriðju, byggingariðnaði, matvælaiðnaði o.s.frv. Iðnaðurinn skapar miklar tekjur, eða þrjár af hverjum 10 krónum í landsframleiðslunni, sem sýnir um hve mikla hagsmuni fyrir þjóðarbúið er að tefla fyrir utan svo margt annað sem ég kem kannski betur að síðar í umræðunni.