Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 16:58:57 (3797)

2004-02-03 16:58:57# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Mörður Árnason:

Forseti. Hin alvarlegustu mistök okkar í uppbyggingu starfsnáms og skipulagi framhaldsskólans í heild eru brottfallið sem ég ætla að ræða hér stuttlega. Ég held að við eigum að líta á brottfallið sem eina af þeim einkunnum sem skólinn fær á hverjum tíma og í okkar tilviki eigum við að líta á það sem hluta af sjúkdómsgreiningunni.

Frá sjónarmiði hagstjórnar þýðir brottfall úr framhaldsskóla og öðrum skólum að verið er að spilla mannauði og láta vinnutíma fara til ónýtis en við eigum ekki að gleyma því að bak við prósentutölur og súlurit og reiknilíkön er fólk af holdi og blóði, ungt fólk á viðkvæmasta þroskastigi, og fyrir mörgum þessara einstaklinga er það að hætta í skóla persónulegt áfall. Aðrir missa síðan af tækifæri til að þroska sig eðlilega og rækta hæfileika sína.

[17:00]

Mig langar til að líta á þennan brottfallsvanda frá nokkrum hliðum og sjá hvernig hann tengist því ástandi sem starfs- og verknám hjá okkur er nú í. Það eru margar áleitnar spurningar sem vakna við þetta og rannsóknir eru því miður ekki nægjanlegar. Ber þó að þakka það sem gert hefur verið, framlag fræðimanna eins og Jóns Torfa Jónassonar, Kristjönu Blöndal, Gerðar G. Óskarsdóttur, Gests Guðmundssonar, Guðmundar Rúnars Árnasonar, Kristrúnar Ísksdóttur og fleiri.

Ég ætla að rekja hér tölur. Almennt er, síðustu ár, að um 90% af hverjum árgangi fara í framhaldsskóla. Aðeins milli 65 og 70% hvers árgangs útskrifast hins vegar úr framhaldsskóla, ljúka þar prófi samkvæmt OECD-skýrslu frá 1997. Þeir sem ekki fara í framhaldsskóla eru 10% nemenda, um 400 manns af hverjum árgangi, og þegar við leggjum það saman við þau 20--25% nemenda sem ekki ljúka námi í framhaldsskóla, þ.e. sjálfa brottfallstöluna, fáum við 30--35% af hverjum 4 þúsund manna árgangi, þ.e. á milli 1.200 og 1.400 manns sem ekki ljúka neins konar prófi úr framhaldsskóla.

Í þessari könnun var miðað við allt fram til 25 ára aldurs þannig að sú íslenska venja að taka sér hlé í námi hefur ekki áhrif á þessar tölur. Samanburður við aðrar þjóðir í OECD-skýrslunni sýnir að á Íslandi brautskrást um 10--15% færri úr framhaldsskóla en að meðaltali í OECD-löndunum, en þar er hlutfallið um 80%.

Íslenski framhaldsskólinn hefur annars konar sérstöðu. Hér útskrifast miklu færri úr starfsnámi en bóknámi. Hér lýkur um helmingur hvers árgangs framhaldsskólanum með stúdentsprófi en aðeins 15--20% með starfsnámi. Hliðstætt meðaltal í OECD-ríkjum er 37% í almennu námi, í stúdentsnámi eða þvílíku námi, bóknámi, og 42% í starfsnámi. Þetta er afar athyglisverður munur. Hann er þannig að við erum með 50% bóknám, 20% starfsnám, ef við tökum hæstu töluna, og 30% sem ekki ljúka námi í hverjum árgangi, en hjá OECD-ríkjunum eru tölurnar 37%, 42%, en aðeins 21% sem ekki lýkur námi. Það eru sem sé um helmingi fleiri sem útskrifast úr starfsnámi erlendis en hér og þetta gjörólíka hlutfall er auðvitað hluti af þeim vanda sem Lilja Mósesdóttir hefur nýverið bent á og tekið er fram í grg. með þessari þáltill.

Mig langar til að nefna tvenns konar talnastaðreyndir í viðbót úr miklu safni frá þeim fræðimönnum sem áður eru nefndir, talnastaðreyndir sem ég tel að upplýsi þetta mál að nokkru leyti. Annars vegar er sú staðreynd að í því starfsnámi sem þó er í boði virðist skólunum haldast betur á nemendum í starfsnáminu en í bóknáminu. Um 36% þeirra sem hefja starfsnám í framhaldsskóla ljúka því ekki á tilsettum tíma, eru lengur en fjögur ár, hætta eða fara annað. Þetta hljómar mikið og er mikið, 3--4 af hverjum 10.

Tölurnar um bóknámið eru hins vegar enn þá hærri. Þar eru það hvorki meira né minna en 58% sem eru lengur, hætta eða fara annað, næstum 6 af 10. Sumir þeirra fara reyndar í starfsnámið.

Þetta sýnir með mörgu öðru að fjölbreyttara og betra framboð starfsnáms mundi ná til stærri hóps en nú er, fækka þeim sem falla brott, auka menntunarstig í hverjum árgangi og sennilega líka námsvirknina.

Hinar tölurnar sem ég vil nefna úr þessum rannsóknum eru um athyglisverðan kynjamun samkvæmt rannsóknum Jóns Torfa og Kristjönu. Brottfallið er meira hjá piltum en stúlkum. 38% stúlkna af árganginum 1975 kláruðu ekki framhaldsskóla en heil 48% pilta. Hlutfall þeirra sem hafa lokið starfsnámi er hins vegar helmingi meira í karlahópnum, 15% á móti 7. Þetta er athyglisvert og Kristrún Ísaksdóttir vekur sérstaka athygli á því í erindi sem ég styðst hér við að starfsnám sem höfðar til kvenna samkvæmt hefð sé afar fábreytt í framhaldsskólanum. Þá er líka minnt á að ýmislegt hefðbundið kvennastarfsnám er núna komið á háskólastig svo sem hjúkrun.

Hér kynni að vera leið til þess að ná verulegum árangri á skömmum tíma með tiltölulega litlum tilkostnaði, þ.e. að reyna markvisst að bæta framboð starfsnáms með stúlkurnar sérstaklega í huga. Síðan þarf auðvitað að athuga þennan kynjamun betur. Minn grunur er sá að orsökin fyrir þessu geysilega háa hlutfalli pilta án framhaldsskólaprófs, næstum því helmingur af hverjum árgangi, eigi sér líka rætur í ónógu framboði á starfsnámi og rótgrónum fordómum gagnvart því. Það skiptir líka máli að það virðist talið mikilvægara í samfélaginu að stúlkur ljúki námi, piltarnir geti frekar komist af án menntunar. Þetta viðhorf kann að hafa átt einhvern rétt á sér um miðja síðustu öld en á það auðvitað ekki lengur.

Við leggjum til að það sé rannsakað af hverju brottfallið er svona mikið á Íslandi, það er liður í tillögum okkar hér. Það þarf auðvitað að skoða ýmislegt í því. Það kemur í ljós í þeim rannsóknum sem ég nefni, Jóns Torfa og Kristjönu, að brottfallshópurinn skiptist nokkurn veginn í tvennt eftir afstöðu sinni. Annar vegar helmingurinn sem er tiltölulega ánægður og þykir það ekki hamla sér að hafa fallið brott úr skóla eða aldrei komist í hann, hins vegar helmingurinn sem virðist ekki hafa boðist nám við hæfi í skólanum, og þessi hópur er óánægður og vansæll eftir reynslu sína af skólanum. Hann lítur á það sem persónulegan ósigur að hafa hætt skólagöngu og segir að sér hafi leiðst, að hann hafi ekki séð neinn tilgang með því að halda áfram eða ekki fundið neitt nám við sitt hæfi og verri einkunn getum við varla gefið íslenska skólakerfinu en að þessi stóri hópur segi slíkt um það.

Ég ætla síðar í umræðunni að koma nánar að ýmsum þáttum þessa máls, þó að stuttur tími sé til þess, sérstaklega að fjalla um nýjar kenningar í skóla- og uppeldismálum sem menn kannast við hér á þinginu, hina svokölluðu fjölgreindarkenningu og athuga hvernig hún passar við ástandið í okkar skóla- og menntamálum og það sem við þurfum að gera í þeim efnum.