Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 17:14:29 (3799)

2004-02-03 17:14:29# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Hér er til umræðu afskaplega mikilvægt mál eins og fram hefur komið hjá hv. þm. sem hér hafa flutt ágætar ræður. Það væri reyndar fróðlegt að láta taka saman hversu margar ræður hafa verið fluttar um þetta efni á hv. Alþingi síðustu 30 árin. Ég leyfi mér að fullyrða að inntak þeirra ræðna um þetta efni sé mjög keimlíkt hjá öllum ræðumönnum, hvar í flokki sem þeir standa. Til viðbótar við slíka samantekt væri fróðlegt að leggja saman líklega nokkra kílómetra af rituðu efni sem birst hefur víða þar sem verið er að fjalla um gildi þess að efla starfsmenntun. Á hátíðisdögum í ræðu og í riti er í rauninni enginn ágreiningur um það háleita og merka markmið sem birtist í þessari þáltill. eins og öllum þeim ræðum og ritum sem um þetta hafa fjallað.

[17:15]

Ég er sammála því sem fram hefur komið og tölur staðfesta, að hvað varðar virðingu og stöðu starfsnáms hefur lítið breyst. Ég er hins vegar ósammála því sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að um væri að kenna metnaðarleysi stjórnvalda allra tíma. Ábyrgðin á þessu er ekki eingöngu stjórnmálamanna og ég hygg að ef draga ætti þá til ábyrgðar væru allir flokkar samábyrgir í því. En starfsnám verður ekki byggt upp af stjórnmálamönnum einum saman.

Við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur því sem ég tel vera meginspurninguna í þessu sambandi: Hvers vegna hefur jafnlítið gerst hvað starfsmennt varðar og raun ber vitni, þrátt fyrir hástemmdar viljayfirlýsingar allra aðila? Það þarf ekki að fara í manngreinarálit með það. Ég kann ekki svarið, enda hygg ég að margþætt svar þurfi til að svara þessari spurningu.

En ég vil vekja athygli á því að í lögum um framhaldsskóla --- hér er ekki síst fjallað um framhaldsskóla --- er gert ráð fyrir því að ákveðið frumkvæði á þessu stigi komi frá starfsgreinaráði. Hverjir skipa starfsgreinaráðin? Það eru fulltrúar atvinnulífsins, launþegahreyfinga, atvinnurekenda og skóla, þ.e. þeir aðilar sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir að komi að nefndinni að viðbættum stjórnmálamönnum. Aðilar í atvinnulífinu standa, hvort heldur eru atvinnurekendur, launþegar eða starfsmenntaskólar að þessum ráðum. En svo virðist sem frumkvæðið frá starfsgreinaráðunum sé lítið eða ekkert. Þá þurfum við aftur að velta upp spurningu: Hvers vegna er það?

Ég dreg þetta fram, frú forseti, til að reyna að sýna að í rauninni er ekkert í lögum sem hamlar því að þetta frumkvæði komi frá atvinnulífinu. Og þaðan á frumkvæðið að koma.

Á þessu eru margar skýringar. Ein skýringin er örugglega ákveðin hagsmunagæsla. Önnur skýringin er alveg örugglega hin mikla ofurtrú á stúdentum. Áður hefur verið fjallað um gildi umfjöllunar fjölmiðla um útskrift úr framhaldsskólum þar sem áherslan er alltaf á stúdenta. Inntakið er að stúdentar útskrifist. Um leið er lítið gert úr þeim sem eru þó að ljúka hinu verklega námi. Latínu-Gráni gengur sem sagt enn laus, hefur gert í áratugi og tröllríður öllu. Afleiðingin er eins og fram hefur komið að af þeim 90% sem fara úr grunnskóla í framhaldsskóla fara 70% á bóknámsbrautir og 30% á verknámsbrautir, öfugt við það sem er í nágrannaríkjum okkar.

En afleiðingin er líka önnur. Það er hærra brottfall í framhaldsskólum hér en annars staðar. Það er mjög eðlilegt vegna þess að atvinnulífið endurspeglast ekki í framhaldsskólunum. En afleiðingin er líka sú, sem hefur verið haldið fram án þess að ég taki afstöðu til þess, að við séum jafnvel að ofmennta þjóðina, að óeðlilega hátt hlutfall sæki inn í háskólann vegna þess að störfin sem bjóðast eftir slíkt nám eru í takmörkuðu magni og endurspegla ekki nám í framhaldsskólunum. Tæplega 300 þúsund manna þjóð með 11 háskóla. Er það rétt eða rangt? Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess en við þurfum að velta því upp.

Það er líka rétt að benda á ágalla á framsetningu þessarar þingsályktunartillögu þó að ég sé samþykkur markmiðunum og þeim sjónarmiðum sem þar búa að baki. Þessi galli kemur m.a. fram í heiti tillögunnar: Tillaga til þingsályktunar um eflingu iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum. Í þessu felst m.a. að í tillögunni er ekki gert ráð fyrir mannfrekustu atvinnugreininni á Íslandi. Það er ekki gert ráð fyrir henni þarna. Ég hygg að það sé ekki ásetningur, en sú atvinnugrein er þjónustan. Þjónusta alls konar, sem er langsamlegasta mannfrekasta atvinnugrein á Íslandi, er ekki til í skólakerfinu. Hún gleymist oft í þeirri umræðu sem fram fer. Þar kemur fram sama hugsun og býr að baki fullyrðingum um að starfsnám sé dýrara. Ég er ekki sammála því. Þegar menn fullyrða að starfsnám sé dýrara en bóklegt nám eru menn að miða við fræsara, hefilbekki og dýr tæki. En ekki kallar allt starfsnám á dýran tækjabúnað, þar á meðal nám við þjónustugreinarnar.

Á því starfsnámi er til sú útfærsla að bóklegir þættir og kannski tilteknir verklegir þættir fari fram í skóla en síðan fari starfsþjálfun fram eftir ákveðnum vinnubókum í atvinnulífinu, úti í fyrirtækjunum þar sem búnaðurinn er til staðar. Það hefur verið reynt víða erlendis og er sumpart gert í iðnnámi með afskaplega góðum árangri. Það segir sig sjálft ef við ætlum að byggja upp eftirmynd af atvinnulífinu og endurspegla allar atvinnugreinar í framhaldsskólunum þá mun þjóðfélagið aldrei ráða við það, einfaldlega vegna þess að endurnýjun á tækjabúnaði verður mikil. Þetta eru þættir sem þarf að taka vel til skoðunar.

Ég sé að tími minn er að renna út, frú forseti. Ég er sammála þeim markmiðum sem sett eru fram með þessari þáltill. Ég hef samt ákveðnar efasemdir um að það að enn ein nefndin eigi að fjalla um þetta muni skila einhverju. Ég tel að atvinnulífið þurfi að taka sér alvarlegt tak í þessu og setja sér þau háleitu markmið að viðurkenna gildi þess að efla starfsnám. Það eykur verðmætasköpun í samfélaginu og leysir margan vanda.