Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 17:22:47 (3800)

2004-02-03 17:22:47# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., Flm. BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[17:22]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þátttökuna í umræðunni og þann mikla áhuga sem ég veit að hann hefur á starfsmenntun hvers konar, enda fyrrum skólameistari og áhugamaður um fagið.

Vissulega á frumkvæði og atorka að koma úr öllum áttum, bæði úr atvinnulífinu eins og annars staðar frá. Manni hefur reyndar oft sýnst að þar sé heilmikill áhugi á að efla starfsnám eins og berlega hefur komið í ljós í nokkuð máttugum málflutningi Samtaka iðnaðarins á undanförnum árum og mikilli og öflugri hvatningu þeirra til stjórnvalda um að standa betur að starfsmenntun á Íslandi.

Það verður aldrei fram hjá því litið að rætur vandans, rætur undanhaldsins og þeirrar stöðu starfsnámsins að vera nokkurs konar hornkerling í menntakerfinu, er að rekja til fjárskorts og þess hvernig staðið er að úthlutun á fjármagni til framhaldsskólanna. Margir framhaldsskólar hafa einfaldlega ekki með nokkrum hætti séð kost á að halda úti verknámi, stofna nýjar starfsnámsbrautir og hefja öflugt frumkvöðla- og frumherjastarf í starfsnámi með styttri námsbrautum við þann fjárskort sem skólarnir hafa búið við. Það er einfaldlega miklu ódýrara að standa að bóknáminu en kennslu í þeim starfsnámsgreinum sem útheimta verklega kennslu. Þær krefjast flestar verklegrar kennslu þótt að sjálfsögðu finnist dæmi um annað.

Því spyr ég hv. þm. hvort hann haldi virkilega að fjárskorturinn og skortur á kynningu stjórnvalda á náminu sé ekki rót þess vanda sem starfsnámið á við að etja í skólunum í dag.