Efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum

Þriðjudaginn 03. febrúar 2004, kl. 17:57:22 (3807)

2004-02-03 17:57:22# 130. lþ. 55.4 fundur 12. mál: #A efling iðnnáms, verknáms og listnáms í framhaldsskólum# þál., Flm. BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 130. lþ.

[17:57]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram bæði gagnleg og tímabær umræða um starfsmenntir í framhaldsskólum landsins og margt gott verið sagt um stöðu þeirra mála og hvað þurfi að gera til að verja þá stöðu og skjóta nýjum stoðum undir starfsmenntun í landinu. Þessari umræðu er að sjálfsögðu ætlað að verða fyrsta skrefið í viðamikilli og þungri umræðu um þetta mikilvægi menntakerfisins. Þó að margt hafi verið sagt á mörgum árum um starfsmenntir og mikilvægi þess að efla þær í landinu hafa þeim mörgu orðum og þeim orðaflaumi ekki fylgt efndir eða gerðir með neinum hætti. Í þessum geira menntakerfisins er einkavæðing eða einkaskólar ekki lausnin af því að hér sjá menn einfaldlega engan fjárhagslegan hagnað eða grundvöll undir slíkt námi eins og menn sjá með hraðbrautaskólann í Garðabæ og ýmsa aðra sjálfstæða skóla. Þess vegna grunar mann að þar með hafi áhugi Sjálfstfl. á málinu einfaldlega gufað upp. Í áratuga tíð hans í menntmrn. hefur einfaldlega ekkert gerst sem horfir til framfara í verkmenntun um allt of langt skeið.

Það er dapurleg þróun og því blásum við, þingflokkur Samf., allur eins og hann leggur sig, til sóknar í þessum geira menntakerfisins, sem og mörgum öðrum. Við höfum þó sett á oddinn, alveg frá því á haustdögum og raunar frá því í kosningabaráttunni sl. vor, að efla mjög markvisst ástundun, framboð og hvers kyns framrás starfsmennta og styttri námsbrauta í menntakerfinu. Það blasir við að þeir sem eiga ekki kost á því að verða sér út um færni og menntun eru líklegir til að lenda á jaðri þekkingarsamfélags framtíðarinnar og festast þar í fátækt og lægri launum. Menntakerfi framtíðarinnar verður að bjóða upp á sífellda menntun og opinn skóla þar sem einstaklingurinn á kost á að þjálfa upp nýja hæfni til að vera gjaldgengur á vinnumarkaði. Þetta er mjög brýnt og hafa ber í huga að hér á landi, eins og fram kom hér fyrr í umræðunni, ljúka allt að 40% hvers árgangs ekki framhaldsskólanámi samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands. Þessu verður að breyta og tryggja það að þetta fólk hafi aðgang og afli sér menntunar.

Þá ber sérstaklega að geta þingmáls sem fram verður lagt á næstu dögum og hefur aðeins verið tæpt á hér í umræðunni. Það kemur fram í greinargerðinni og ber heitið ,,Nýtt tækifæri til náms``. Það hefur verið í endurvinnslu síðustu mánuði og missiri undir forustu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og mun líta dagsins ljós á næstu dögum.

Vegna fyrirkomulags í þinginu ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri í bili en minni aftur á það að þetta er einungis fyrsti vísir að mikilli og merkilegri og þarfri umræðu. Hún þarf að eiga sér stað um gildi og mikilvægi starfsmenntunar sem felst ekki síst í viðhorfsbreytingu gagnvart náminu þannig að það verði hvati ungu fólki að sækja ekki síður í starfsmenntir en bóknám. Það mun áreiðanlega og án nokkurs vafa verða til þess að draga verulega úr því ótrúlega háa brottfalli sem einkennir íslenska framhaldsskóla.