Afgreiðsla stjórnarfrumvarps um fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 13:36:38 (3821)

2004-02-04 13:36:38# 130. lþ. 56.91 fundur 286#B afgreiðsla stjórnarfrumvarps um fjármálafyrirtæki# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Pétur H. Blöndal:

Hæstv. forseti. 7. mál á dagskrá fundarins er frv. hæstv. viðskrh. um fjármálafyrirtæki sem breytt var í gær. Samkvæmt 36. gr. þingskapa má eigi, nema með samþykki þingsins, taka frv. til umræðu fyrr en liðnar eru a.m.k. tvær nætur frá því er því var útbýtt. Þess vegna mun ætlun hæstv. forseta að fá samþykki þingsins fyrir afbrigðum þannig að þetta mál megi taka á dagskrá. Spurning mín til hæstv. forseta er hvað það er sem rekur á eftir því að þetta frv. verði keyrt áfram með slíkum hraða. Er það fyrirhugaður fundur stofnfjáreigenda SPRON sem halda á nk. þriðjudag, 10. febrúar, til að taka afstöðu til samnings sem stjórnir SPRON og KB-banka hf., þá Kaupþing -- Búnaðarbanki hf., gerðu með sér 21. desember 2003 í samræmi við gildandi lög? (KLM: Er þingmaðurinn ...?)

Þar sem ég er formaður hv. efh.- og viðskn. sem mun fá þetta mál til umfjöllunar og vil gjarnan greiða fyrir þingstörfum þætti mér vænt um að heyra hugmyndir hæstv. forseta um framgang málsins í samræmi við 2. mgr. 18. gr. þingskapa, hvort hv. nefnd eigi að leita skriflegra umsagna þeirra aðila sem málið varðar og álits lögfræðinga á lagalegum áhrifum þessa frv. svo sem jafnan er gert við vandaða lagasetningu og kveðið er á um í 28. gr.