Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 14:06:30 (3833)

2004-02-04 14:06:30# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að fá að svara þessu í upphafi umræðunnar. Það sem frv. tekur á er að skilið er á milli stofnfjáreigenda annars vegar og sjálfseignarstofnunar hins vegar. Þannig eru það ekki stofnfjáreigendur sem stjórna sjálfseignarstofnuninni og ekki stofnfjáreigendur sem ákveða gengið á sjálfseignarstofnuninni.

Það sem ég hef gagnrýnt allan tímann, frá því að þessi viðskipti voru gerð opinber á milli KB-banka og SPRON, er að það er mismunandi gengi eftir því hvort um er að ræða stofnfé einstaklinga sem orðin eru að hlutabréfum eða hlutabréf sjálfseignarstofnunar. Annars vegar er gengið 2,13 og hins vegar gengið 1. Með þessu frv. er um aðskilnað að ræða. Þannig er sjálfstæð stjórn yfir sjálfseignarstofnuninni sem tekur ákvörðun um hvort hún er tilbúin að selja á genginu 1 og hún hefur ekki hagsmuna að gæta vegna þess að hún á ekki stofnbréf, stjórnin, þ.e. stjórnarmenn. Þetta er meginatriði málsins. Hins vegar er líka ljóst að þegar þessi mál voru síðast til umfjöllunar á hv. Alþingi kom tillaga frá hv. efh.- og viðskn. um breytingar á 74. gr. sem gerir það að verkum að hlutafé stofnfjáreigenda er metið þannig að þeir standi ekki verr að vígi eftir að búið er að selja þeirra hlut en ella. Réttara sagt: Þegar stofnfé er breytt í hlutafé á viðkomandi stofnfjáreigandi ekki að standa verr að vígi en áður. Það var að frumkvæði efh.- og viðskn. sem þessi breyting var gerð og hún hefur vissulega ákveðin áhrif í öllu þessu máli.