Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 15:13:40 (3851)

2004-02-04 15:13:40# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það væri aldeilis undarlegt ef ég ætti að afsala mér öllum skoðunum og baráttumálum af því að ég gerist formaður nefndar. Það væri aldeilis undarlegt. Það væri mjög undarlegt ef ég mætti ekki berjast fyrir því, að mér sýnist einn gegn öllum öðrum þingmönnum. Það væri undarlegt ef sjónarmið mitt mætti ekki heyrast af því að ég er formaður nefndar. Þetta hef ég aldrei heyrt áður, aldrei nokkurn tíma.

Auðvitað hlusta ég á alla umræðuna. Auðvitað hlusta ég á allt það sem menn segja og auðvitað verð ég í nefndinni, stýri fundi og gef mönnum orðið. Það hefur enginn kvartað undan því að ég hafi ekki gefið mönnum orðið. Hlutverk mitt í nefndinni er eingöngu að kalla hana saman og ég hef lýst því yfir að ég mun gera það hratt og vel og í samræmi við kröfur þingsins. Ég vildi bara vita frá hæstv. ráðherra hve mikið lægi á, hvort það væri 10. febrúar sem um er að ræða og hvort spurningin sé um að ógilda þennan samning eða ekki. Ég hef spurt að því sérstaklega og ég mun flýta störfum nefndarinnar eins og hægt er.

Ég hef líka spurt hvort ég hefði tíma til að leita umsagna eða hvort ég geti kallað til gesti. Þetta er hlutverk mitt og allir nefndarmenn hafa sama vægið í nefndinni. Allir geta tekið til máls og ég held að ég eigi meira bágt að vera í þeirri nefnd en aðrir nefndarmenn eftir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég er nærri viss um að ég verð þar í minni hluta en ekki í meiri hluta þar sem ég muni eitthvað misbeita valdi. Mér finnst þetta ótrúleg umræða. Telja menn virkilega að þingmenn eigi að hætta að berjast fyrir málum sínum? Á hv. þm. Helgi Hjörvar að hætta að berjast fyrir málefnum öryrkja af því að hann hefur hag af því sjálfur?