Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:01:50 (3863)

2004-02-04 17:01:50# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:01]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Frú forseti. Ég hafði gert ráðherra viðvart áður en kom að þinghléi að ég óskaði eftir nærveru hennar þegar ég mundi hefja framsögu mína í þessu máli. Ég spyr því hvort hæstv. ráðherra sé einhvers staðar nærstaddur því að ég vil ógjarnan hefja mál mitt fyrr en ráðherrann er komin í salinn.

(Forseti (ÞBack): Ég vil tilkynna að hæstv. ráðherra hefur fengið ábendingu um að þingfundur sé hafinn og óskað hafi verið eftir nærveru hennar og ráðherra er í húsinu.)

Ég vil síður, frú forseti, að klukkan gangi mikið á mig meðan ég þegi í ræðustól.

Virðulegi forseti. Ég skal, í trausti þess að ráðherra birtist á næstu mínútu eða svo, hefja mál mitt.

Ég hygg að flestir séu sammála um það, og það kom reyndar fram á fundinum sem haldinn var í efh.- og viðskn. með fulltrúum SPRON og sparisjóðanna í landinu og fleiri aðilum, að ef þau áform gengju fram sem staðið hafa fyrir dyrum hjá SPRON og KB-banka væri það upphafið að endalokunum. Það sjá auðvitað allir að það mun leiða til aukinnar fákeppni á markaðnum ef það gengur fram, en hlutdeild sparisjóðanna er um 25% í innlánum, var fyrir skömmu 14%. Það er alveg ljóst að stóru risarnir á bankamarkaðnum bíða eftir því að geta gleypt sparisjóðina einn af öðrum, sem mun örugglega verða fljótlega, a.m.k. hvað varðar stærstu sparisjóðina, ef þetta gengur fram. Við erum að tala um 24 sparisjóði sem þjóna um 60--70 þús. viðskiptavinum með starfsmannafjölda upp á 900 manns.

Þess vegna er ástæða til að fagna því frv. sem hefur verið lagt fram þó ýmislegt bendi til að það gangi of skammt og ég vil fara nokkuð inn á það í máli mínu. Í þingmannafrumvarpinu sem var tilbúið þegar hæstv. ráðherra og ríkisstjórn ákváðu að leggja fram þetta mál voru ýmis ákvæði sem ég tel að hefðu reist þær girðingar sem nauðsynlegar eru til að við getum sæmilega treyst því að sparisjóðakerfið í landinu riðaði ekki til falls eða hryndi á einni nóttu eins og hæstv. viðskrh. óttaðist fyrir nokkrum missirum.

Forsvarsmenn Sambands íslenskra sparisjóða sem mættu á fund efh.- og viðskn. nefndu að sú þróun sem gæti farið af stað mundi kollvarpa sparisjóðakerfinu og eyðileggja þá bakhjarla sem sparisjóðakerfið hefur byggt á, eins og Tölvumiðstöðina og Sparisjóðabankann. Starfsemin gæti lamast ef stærstu sparisjóðirnir rynnu inn í stóra bankann. Þetta verður að koma í veg fyrir, ella blasir við aukin samþjöppun og fákeppni sem hefur auðvitað neikvæð áhrif á kjör neytenda og ég býst við því að hæstv. viðskrh. hafi það í huga þegar hún setur fram þetta frv.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um er það sem nokkuð var nefnt í umræðunni fyrr í dag en mér finnst ekki hafa komið nægilega skýrt fram hjá hæstv. ráðherra. Sú spurning lýtur að þeirri stjórn sem hefur verið skipuð yfir sjálfseignarstofnuninni í tengslum við viðskipti SPRON og KB-banka. Það er spurning hvort sú stjórn sem var skipuð í janúar yfir sjálfseignarstofnuninni væntanlegu muni sitja áfram eftir þessa lagasetningu. Það getur auðvitað ráðið úrslitum um hvort SPRON gangi inn í KB-bankann.

Getur hæstv. ráðherra fullvissað okkur í þinginu og okkur sem eigum að fara að fjalla um málið í efh.- og viðskn., sem höfum ekki tök á að ræða við ráðherrann þar, um að öruggt sé að á stofnfundinum 10. febrúar verði kosin stjórn í samræmi við ákvæði 2. gr. frv. sem við erum að fjalla um? Ef svo verður ekki, ef stjórnin situr áfram, sem mér heyrðist á stjórnarformanninum og hv. þm. og formanni efh.- og viðskn., til hvaða ráða mun hæstv. ráðherra grípa þá? Hvaða tök hefur hún á málinu ef stjórnin, sem þegar hefur verið skipuð, situr áfram á stofnfundinum? Ýmsir óttast það og þess vegna bið ég hæstv. ráðherra að fara aðeins nánar yfir það mál og til hvaða ráða hún getur gripið ef sú staða kemur upp.

Ég vil líka ræða ákvæðið sem var í þingmannafrumvarpinu, 74. gr., og ákvæðið sem kom inn í meðförum efh.- og viðskn. þegar við vorum að fjalla um frv. um fjármálafyrirtæki á árinu 2002, eða dúsuna svokölluðu sem sætt hefur mikilli gagnrýni, að stofnfjáreigendur fái mjög mikið í sinn hlut samanborið við t.d. sjálfseignarstofnunina. Viðskrh. tekur ekki undir að breyta þessu, ef ég skil orð hæstv. ráðherra rétt, og ber fyrir sig eignarréttarákvæði í stjórnarskránni. Það er nánast hlálegt, virðulegi forseti, að bera þessi ákvæði fyrir sig þegar í hlut á óeðlilegur hagnaður stofnfjáreigenda, þar sem verið er að færa fámennum hópi mikil verðmæti sem hann getur með engu móti átt tilkall til, því að við höfum nýlega verið að fjalla um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem voru á ansi gráu svæði. Margir héldu því fram að það væru brot á eignarréttarákvæðunum sem vörðuðu skerðingu á vaxtabótum og ríkisstjórnin stóð að fyrir jólin. Ríkisstjórnin virtist þá ekki hafa miklar áhyggjur af því máli eða þegar hún tvívegis hefur orðið uppvís að því að brjóta stjórnarskrána, t.d. á öryrkjum, og eignarréttarákvæði hennar. En núna allt í einu þegar stofnfjáreigendur eiga í hlut, þar sem þeir eru að fá óeðlilega mikið til sín, hefur ráðherrann áhyggjur af því að ekki sé hægt að breyta þessu af því að það gangi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég skal ekki útiloka að svo sé en mér finnst full ástæða til þess að ákvæðið sé skoðað og látið á það reyna og að það verði tekið inn í brtt. efh.- og viðskn. við meðferð þessa máls.

Virðulegi forseti. Áður en þessi áform komu upp á borðið í SPRON áttu stofnfjáreigendur 11% í eigin fé bankans en bankinn sjálfur 89%. Eftir breytinguna, gangi hún öll fram, eiga stofnfjáreigendur 33% í staðinn fyrir 11% en sjálfseignarstofnunin 66% af eigin fé í staðinn fyrir að SPRON átti áður 89%. Þeir fá sem sagt þriðjung við þessa breytingu. Það er þetta sem er auðvitað gagnrýnisvert og ég vil koma nánar að í mínu máli.

Við breytinguna á sparisjóði í hlutafélag á árinu 2001 áttu stofnfjáreigendur eingöngu að fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluta sinn og samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fengju í sparisjóðnum skyldi nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og endurmetið stofnfé skv. 23. gr. laga nr. 113/1996 sem næmi samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Þetta ákvæði átti að tryggja að áætlað verðmæti hlutafjár stofnfjáreigenda væri hið sama og endurmetið stofnfé fyrir hlutafélagavæðingu sparisjóðsins.

En meiri hluti efh.- og viðskn. lagði til brtt. við meðferð þessa máls sem var á þá leið að við mat á stofnfjárhluta skyldi hafa til hliðsjónar arðsvon stofnfjárhluta skv. 68. gr. annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar. Þetta ákvæði tel ég að eigi að hugleiða vel að fella einnig brott.

Við vöruðum við því, fulltrúar Samf. á Alþingi á þessum tíma, að hér væri á ferðinni afar matskennt og opið ákvæði og að með lögfestingu þessa ákvæðis væri verið að auka verðgildi stofnfjárhluta við breytingu á sparisjóði í hlutafé og það gengi gegn grunngildum sem sparisjóðalöggjöfin hafi byggt á um verðgildi stofnfjárhluta sem er nafnverð stofnfjár sem taki breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs. Ég hygg að þetta hafi komið á daginn.

Þær aðvaranir sem settar voru fram um þetta ákvæði hafa reynst réttar. Það liggur nú fyrir að stofnfjáreigendur muni hagnast með afar óeðlilegum hætti gangi þau áform eftir að Kaupþing -- Búnaðarbanki kaupi SPRON sem væntanlega er þó búið að koma í veg fyrir með þessu frv.

KB-banki er reiðubúinn, eða var, að gefa 5,55 fyrir nafnverð stofnfjár sparisjóðsins, eða 3 milljarða kr., en það er athyglisvert að endurskoðunarfyrirtækið PriceWaterhouseCoopers hefur metið verðmæti stofnfjár 1.400 millj. kr., en það var 540 millj. kr. 30. júní sl. Ef þetta ákvæði hefði ekki komið inn, og það upplýstu forsvarsmenn SPRON, hefði matið ekki verið 1.400 millj. kr. hjá PriceWater\-houseCoopers heldur 540 millj. kr.

Síðan er KB-banki reiðubúinn að greiða 3 milljarða kr. fyrir þetta stofnfé en matið á verðmæti á öðru eigin fé sparisjóða breytist einungis úr 4 milljörðum í 6. Þetta er athyglisverð niðurstaða í ljósi þess að ákvæði laganna um að óháður aðili væri fenginn til að meta ákvörðun hlutafjár var til þess að tryggja að sparisjóðsstjórnir gættu ekki hagsmuna stofnfjáreigenda umfram hagsmuni eigin fjár sparisjóðsins.

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að sjá að stjórn SPRON hafi verið að gæta hagsmuna sjálfseignarstofnunarinnar með fullnægjandi hætti þegar stofnfjáreigendur fá hlutfallslega miklu hærra verð fyrir sinn hlut en sjálfseignarstofnunin. Það er ástæða til að velta því fyrir sér og spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki eðlilegt að endurmeta aftur af óvilhöllum aðilum verðmæti eigin fjár SPRON, þegar í ljós hefur komið að markaðsvirði SPRON er mun hærra en PriceWaterhouseCoopers hafði áður metið og markaðurinn er tilbúinn að greiða stofnfjáreigendum 1,6 milljarða umfram mat endurskoðunarfyrirtækisins, sem segir manni að verðmæti SPRON er í heild sinni miklu meira en PriceWaterhouseCoopers hefur metið.

Meiri hluti efh.- og viðskn. setti fram þau rök fyrir þessari breytingu, sem hefði fært stofnfjáreigendum mikinn hagnað ef þetta hefði gengið fram, að hún tryggði að stofnfjáreigendur væru jafn vel settir fyrir og eftir hlutafélagavæðingu. Í raun á það bara við þegar stofnfjáreigendur ákveða að eiga hlutabréf sín áfram með tilliti til arðsvonar og áhættu. Þeir sem seldu sinn stofnfjárhluta eftir breytinguna og tækju því tilboði, ef það stendur áfram og þetta gengur fram, fengju að sjálfsögðu miklu meira í sinn hlut en fyrir hlutafélagavæðinguna.

Þetta vildi ég nefna að þurfi að koma til skoðunar í efh.- og viðskn. Formaður stjórnar SPRON segir um þetta ákvæði í gögnum sem lögð hafa verið fyrir efh.- og viðskn., með leyfi forseta:

[17:15]

,,Með þessu ákvæði var opnuð leið til að meta stofnfé verðmætara við breytingu á rekstrarformi sparisjóðs --- en áður mátti eingöngu miða við framreiknað nafnverð stofnfjárbréfa. Hér var lögfest að heimilt væri að reikna stofnfé hærra verði en framreiknuðu nafnverði. Og í tilviki SPRON, sem hefur verið vel rekinn og greitt góðan arð til stofnfjáreigenda, þýddi þetta skv. óvilhöllu mati sérfróðra aðila, að við breytingu í hlutafélag hækkar verðmæti stofnfjár úr 540 millj. kr. í 1.400 millj. kr. eða 2,6-falt.``

Þetta vildi ég nefna við þessa umræðu, herra forseti, og í lokin velta upp einu atriði sem ég vil nefna við hæstv. ráðherra og spyrja hana um. Það handval sem nú fer fram hefur mjög verið gagnrýnt af núverandi stofnfjáreigendum þegar fjölgað er í fulltrúaráði sparisjóðanna. Að vísu upplýsti fulltrúi Sparisjóðs Keflavíkur á fundi efh.- og viðskn. að þeir í Keflavík hefðu beitt sér fyrir því að fram færi útboð þannig að fleiri gátu orðið stofnfjáreigendur en þeir sem valdir voru af fulltrúaráði eða stjórnum sparisjóðanna. Hér er oft um fámennan hóp að ræða sem hefur vald yfir gífurlegu fjármagni sem hann er ekki nema að litlu leyti eigandi að. Út frá viðskiptalegu sjónarmiði og almannahagsmunum er óeðlilegt að stofnfjáreigendur hafi mikil völd í krafti tiltölulega lítils eignarhluta.

Því hefði verið eðlilegt, eins og var í frumvarpi hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, að gera einnig tillögu um breytingu á þessu í lögum um fjármálafyrirtæki. Það er afar hæpið að lokaður klúbbur fárra stofnfjáreigenda ráði því hverjir gerast nýir stofnfjáreigendur og langt frá því að vera í samræmi við eðlilega viðskiptahætti og gegnsæi starfsemi fjármálastofnana. Það er því á allan máta eðlilegt fyrir framgang og vöxt sparisjóðanna í framtíðinni að breyta því fyrirkomulagi sem gilt hefur um hverjir geti gerst stofnfjáreigendur í sparisjóðum. Æskilegt er að sem flestir geti gerst stofnfjáreigendur sparisjóða og ekki séu óeðlilegar hindranir þar í vegi.

Því er eðlilegt að bæta við ákvæði um að öllum aðilum með lögheimili á starfssvæði sparisjóðanna skuli boðin þátttaka í stofnfjáraukningu. Auk þess að bæta inn ákvæði þess efnis að áður en sparisjóði verði breytt í hlutafélag skuli stofnfé aukið.

Þetta eru þau tvö meginatriði sem ég vildi bæta við og leggja til að skoðuð verði til viðbótar því ákvæði sem er í frv. ráðherrans. Ég óska að auki eftir svari við því sem ég beindi til ráðherra í upphafi, þ.e. hvort hún geti fullvissað okkur um að ekki sé hægt að ganga fram hjá því ákvæði á stofnfundi 10. febrúar að kosið verði í stjórn í samræmi við frv. sem við fjöllum um.