Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:20:51 (3865)

2004-02-04 17:20:51# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég heyri á máli hæstv. ráðherra að hún hefur skilning á gagnrýni minni á 74. gr. Ég fagna því. Hæstv. ráðherra lýsti sig alls ekki andvíga því að þetta ákvæði yrði skoðað, ef ég skil mál hennar rétt, í meðförum efh.- og viðskn. Ef ég hef misskilið það mun það væntanlega koma fram í öðru andsvari hennar, þ.e. ef hún er alveg andvíg því að breyta þessu. Ella lít ég svo á að ráðherrann sé ekki ósátt við að við skoðum í efh.- og viðskn. að fella brott þetta ákvæði.

Varðandi það sem ég og fleiri hv. þingmenn höfum áhyggjur af, þ.e. að á stofnfundinum sem haldinn verður 10. febrúar verði öruggt að kosið verði í stjórn í samræmi við það frv. sem hér liggur fyrir, enda verði það orðið að lögum þar sem öruggt er að fyrir þessu máli er mikill meiri hluti í þinginu, þá telur ráðherra að kjósa eigi í stjórn sjálfseignarstofnunarinnar í samræmi við ákvæði í frv. sem við fjöllum um. Annað er væntanlega ólöglegt, virðulegi forseti, ef ég skil mál hæstv. ráðherra rétt. Þá er spurning hvaða úrræði hæstv. ráðherra hefur ef sjálfseignarstofnunin ætlar að beita því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lýst, að segja að hér sé um afturvirkni að ræða og af því að stjórnin hafi verið skipuð í janúarmánuði eigi þessi lög ekki að ná til skipunar þeirrar stjórnar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvaða úrræði hún hefur ef svo fer að á stofnfundinum verði óbreytt skipan stjórnar og ekki kosið til stofnfundar í samræmi við ákvæði þessara laga.