Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:23:02 (3866)

2004-02-04 17:23:02# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:23]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. veit þá hef ég ýmis úrræði, m.a. vegna þess að ég fer með eftirlit í tengslum við lög um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri. Ég hef skrifað stjórn sjálfseignarstofnunar SPRON bréf þar sem ég óska eftir svörum við ýmsum spurningum, m.a. um hvernig sú stjórn var skipuð. Ég vænti þess að fá svör við því á morgun.

Ég ætla ekki að segja að ég sé tilbúin að breyta 74. gr. Ég sagði hins vegar að ég hefði ákveðinn skilning á sjónarmiðum hv. þm. sem komu fram síðast þegar málið var til umfjöllunar. Þá var það meirihlutavilji þingsins að breyta ákvæðinu og ég féllst á það þó að það væri ekki í frv. því sem lagt var fram.

Í sambandi við 74. gr. að öðru leyti fellst ég ekki á þær breytingar sem koma fram í drögum að frv. sem hér hefur verið til umfjöllunar þar sem einhverjar líkur eru á því að það ákvæði samrýmist ekki stjórnarskrárvörðum eignarrétti stofnfjáreigenda. Ég vil forðast að taka slíka áhættu eins og skiljanlegt er.

Ýmsum öðrum atriðum kem ég kannski betur að í ræðu minni síðar.