Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 04. febrúar 2004, kl. 17:50:26 (3871)

2004-02-04 17:50:26# 130. lþ. 56.7 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki verið að gera SPRON að skúffu í KB-bankanum. Það er markmið KB-bankans að SPRON hf. starfi áfram og verði öflugasta fyrirtæki á fjármálafyrirtækjasviði einstaklingsþjónustu í landinu. (GAK: Hún verður ...) Þannig sá stjórn SPRON hag SPRON best borgið í þeim ólgusjó sem við stöndum frammi fyrir og hefur sýnt sig á undanförnum árum að margir sparisjóðir hafa lent í vandræðum út af. Fjöldamargir sparisjóðir, Sparisjóður Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Hornafjarðar o.s.frv., hafa lent í slíkum vandræðum. Öllum hefur verið bjargað með því að aðrir sparisjóðir gerðust stofnfjáreigendur í þeim og keyptu aðra stofnfjáreigendur út. Sumir hafa verið seldir. SPRON á einn sparisjóð, nb.is, sem var keyptur frá Vestfjörðum. Kaupþing á annan sparisjóð, keypti hann frá Vestfjörðum til þess að bjarga stöðu mála þar. Sparisjóðirnir lenda eðli máls samkvæmt öðru hverju í vandræðum og þá þarf að vera hægt að grípa til einhvers stofnfjár. Og ef menn ganga svona fram með neikvæðri umræðu um stofnfé yfirleitt er það ekki gott fyrir sparisjóðina.

Varðandi það að komast yfir fé. Hv. þm. gerir ekki greinarmun á því hvort einhver aðili vill kaupa hlutafé á háu verði, og síhækkandi verði eftir því sem hann þarf að eignast stærri hlut af því að hann fær ekki nema 5% fyrir allan sinn hlut. Hann þarf að kaupa 97,5% svo að hann ráði einhverju. Hann má ekki skilja eftir nema 2,5%. Þess vegna þarf hann að kaupa á alltaf hærra og hærra verði, og þetta er samkvæmt lögum sem hv. þm. samþykkti.