Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 10:44:07 (3886)

2004-02-05 10:44:07# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Það sem blasir við hér er að það vantar heildarstefnumótun í málefnum háskólastigsins. Í fyrsta lagi þarf að koma stöðu opinberu háskólanna annars vegar og sjálfseignarstofnunarskólanna hins vegar, hvað varðar t.d. skólagjöld og fjárveitingar, á eðlilegan grunn. Þessa vinnu vantar. Í öðru lagi þarf að móta stefnu um fjöldatakmarkanir hvað varðar einstaka skóla og einstakar brautir, þ.e. í hve miklum mæli þær verði viðhafðar og hvaða nám standi ætíð opið. Í þriðja lagi vantar meira fé til háskólastigsins.

Ekki síst er það Háskóli Íslands sem er í miklu svelti en það gildir reyndar einnig, og ekkert síður, um Háskólann á Akureyri sem hefur verið í örri uppbyggingu og hefur ekki fengið fjölgun nemenda og mikilvægt hlutverk sitt á sviði fjarkennslu viðurkennt sem skyldi.

Þriðja meginstoð hins opinbera háskólakerfis er svo Kennaraháskólinn með íþróttasvið á Laugarvatni sem gegnir sömuleiðis miðlægu lykilhlutverki í háskólasamfélaginu.

Afstaða okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er skýr. Við erum algerlega andvíg skólagjöldum í opinbera skólakerfinu sem við teljum að gegni miðlægu hlutverki í því að tryggja hér fullt jafnrétti til náms. Við teljum að almennar deildir opinberu háskólanna eigi að standa opnar án fjöldatakmarkana og að skólarnir verði að fá viðurkenningu á þeim nemendafjölda sem þar stundar nám hverju sinni. Ég vona að nýskipaður hæstv. menntmrh. gangi hægt um gleðinnar dyr og fari í þessi mál af yfirvegun og laus við kreddu. Ef skólagjöld og fjöldatakmarkanir yrðu tekin upp í hinum almennu háskólum er það ekkert annað en jarðarför fulls jafnréttis til náms án tillits til efnahags. Ég vona að menn langi ekki hér, hvorki menntmrh. né Samf., til að troða götu Tonys Blairs og upphefja þær illvígu deilur sem í Bretlandi standa um þau mál.