Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 10:52:41 (3890)

2004-02-05 10:52:41# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Það má segja að sprenging hafi orðið í nemendafjölda á undanförnum árum við Háskóla Íslands. Í fjárlögum ársins 2003 var gert ráð fyrir 4.500 nemendum við háskólann en á fjáraukalögum sama árs var greitt fyrir 4.950 nemendaígildi og á fjárlögum þessa árs er greitt fyrir 5.200 ársnemendur við Háskóla Íslands.

Ríflega 25% fjölgun hefur verið á ársnemendafjölda við Háskóla Íslands frá árinu 2000. Fjárframlög til kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands hafa aukist úr 3,1 milljarði árið 2000 í tæplega 4,2 milljarða fyrir árið 2004, eða 34% aukning á sama verðlagi. Þessi upphæð er 55% af framlögum til kennslu og rannsókna til háskólastigsins í heild í landinu.

Rétt er að benda á að heildarframlög til háskólastigsins voru ríflega 7,7 milljarðar árið 2000 en eru nú 10,4 milljarðar árið 2004 á sama verðlagi, þ.e. 35% aukning fjárframlaga.

Ef framlög til menntamála á Íslandi sem hlutfall af heildarútgjöldum hins opinbera eru borin saman við önnur lönd stendur Ísland mjög vel og er þetta hlutfall með því hæsta meðal viðmiðunarþjóða. Sama gildir ef það er borið saman sem hlutfall af landsframleiðslu.

Heildarútgjöld til menntastofnana á háskólastigi hafa aukist verulega frá árinu 2000 og stöndum við jafnfætis OECD-ríkjum í þeim efnum.

Árangur menntastefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er m.a. að útskriftarhlutfall úr fræðilegu háskólanámi á Íslandi er það fjórða hæsta meðal OECD-landa miðað við árið 2000, þ.e. tæp 40%, en meðaltal OECD er 30%. Hlutfall Íslendinga á aldrinum 25--64 ára sem lokið hafa háskólanámi er 25% árið 2001 en meðaltal OECD-landa er 23%, og hlutfall þetta hefur hækkað síðan. (Forseti hringir.) Ef litið er á aldurshópinn 30--34 ára sem lokið hafa háskólanámi árið 2000 er hlutfallið 33% á Íslandi og mun hærra en í öðrum löndum.