Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 10:57:23 (3892)

2004-02-05 10:57:23# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Ýmsir skóla- og fræðimenn hafa velt þeirri spurningu upp hvort hugsast geti að við séum að ofmennta íslensku þjóðina. Menn hafa líka velt upp þeirri spurningu hvort áherslur yfir höfuð í menntakerfi okkar, í samfélaginu öllu, séu réttar. (Gripið fram í.)

Við skulum hafa það í huga að Íslendingar eru ekki nema um 290 þús. talsins en við rekum um 10 háskóla, hvern með sína stjórn, með sinn metnað og sinn vilja. Við hljótum líka að spyrja í tengslum við þetta hvort það sé skynsamleg nýting fjármuna hjá 290 þús. manna þjóð.

Ýmsir hafa velt upp þeirri spurningu hvort smáþjóðin Ísland eigi að hafa eina yfirstjórn yfir háskólastigi en hafa ólíkar deildir staðsettar víða. Þá verða menn líka að svara hversu margar einstakar deildir eigi að vera. Þetta eru spurningar sem vert er að velta fyrir sér þegar við fjöllum um skóla- og menntakerfi okkar Íslendinga.

Vandi háskólastigsins á líka rætur að rekja til framhaldsskólastigsins. Eins og margsinnis hefur komið fram fara um 70% framhaldsskólanemenda í bóklegt nám og stefna á stúdentspróf meðan aðeins 30% fara í starfsnám, öfugt við það sem er í nágrannaríkjum okkar. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að flæði nemenda í gegnum íslenska skólakerfið verður óeðlilegt, a.m.k. í samanburði við nágrannaríki okkar.

Það er mjög mikilvægt að sjá atvinnulífið endurspeglast í framhaldsskóla þannig að nemendur geti sótt í það í stað þess óbeint að vera þrýst upp á háskólastigið á sama tíma og skortur er á nemendum á ýmsum starfsnámsbrautum. Þetta, frú forseti, tel ég að við þurfum að ræða og velta fyrir okkur þegar við erum að fjalla um meintan vanda háskólastigsins.