Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:04:10 (3895)

2004-02-05 11:04:10# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), Flm. BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. og hæstv. menntmrh. fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur átt sér stað um stöðu Háskóla Íslands og framtíðarfjármögnun hans. Ég fagna því sérstaklega, frú forseti, að hæstv. ráðherra er greinilega að draga í land með skólagjöldin. Hún sagði orðrétt: ,,Ég er með þessu ekki að segja að ég telji rétt að taka upp skólagjöld.`` Þessi yfirlýsing er fagnaðarefni því hún gengur þvert á fyrri yfirlýsingar í Fréttablaðinu um að skólagjöld væru valkostur.

Þá hefur komið í ljós í umræðunni í dag þegar menn eru að bera saman skólaumhverfi fyrri ára að við verðum að líta til þess alþjóðlega umhverfis sem við hrærumst í í dag í allri umræðu um fjármögnun og aðbúnað Háskóla Íslands.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort ráðherra hafi varið þeim rúma mánuði sem hún hefur verið í embætti til að kynna sér málefni Háskóla Íslands, því hún hefur greinilega ekki mikla þekkingu á afstöðu rektors og yfirmanns Háskóla Íslands til fjárskorts og fjárafla. Þá er rétt að minnast á það í öllu tali um framlög og nemendaþróun og spyrja hæstv. ráðherra: Hefur tólfföldun í meistara- og doktorsnámi Háskóla Íslands orðið til þess að framlög til rannsókna og þess málaflokks í Háskóla Íslands hafa einnig tólffaldast? Ég held að svarið sé nei því að þau hafa staðið í stað. En staðreyndirnar tala sínu máli um hversu alvarleg staðan er og hvernig við Íslendingar höfum gerst eftirbátar annarra þjóða. Sem dæmi má nefna að á Íslandi hafa 27% fólks á aldrinum 25--34 ára lokið háskólaprófi en annars staðar á Norðurlöndunum er það hlutfall yfirleitt 37%. Það þarf að leggja mikla áherslu á það á næstu árum að fjölga einstaklingum sem útskrifast með háskólapróf í hverjum árgangi um allt að 25%. Slík markmið hafa t.d. Finnar sett sér með ótrúlega góðum árangri. Sá árangur náðist af því að þar fylgdu orðum athafnir, fjármunir og forgangsröðun í þágu fjárfestinga í menntamálum.