Fjárhagsvandi Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:06:17 (3896)

2004-02-05 11:06:17# 130. lþ. 57.95 fundur 296#B fjárhagsvandi Háskóla Íslands# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Mér þykir afskaplega vænt um að heyra um þennan hlýhug og stuðning sem þingheimur vill sýna Háskóla Íslands og við ætlum að halda áfram á þeirri braut að hlúa að málum og málefnum Háskóla Íslands.

Skólagjöld verða áfram valkostur. Við hljótum sem ábyrgir stjórnmálamenn að ræða þann valkost, kosti hans sem galla. Við hljótum að geta gert það fordómalaust án þess að detta strax niður í einhverjar skotgrafir.

Nokkrar staðreyndir. Framlög til háskólastigsins hafa aukist um tæp 50% á þremur árum. Nemendum á háskólastigi hefur fjölgað frá árinu 2000 um 43%. Við erum frá árinu 1990 búin að auka heildarframlög til menntamála úr um 4,6%, miðað við verga landsframleiðslu, í 6,4%. Við erum komin langt yfir meðaltal og erum meðal fremstu þjóða í OECD-löndunum varðandi heildarframlög til menntamála. Segið svo að það sé ekki stefna í menntamálum. Ég vil mótmæla því sérstaklega og kröftuglega að hér ríki eitthvert stefnuleysi, enda sýna allar tölur þegar við förum yfir þær að við erum á góðri leið alls staðar þar sem borið er niður, hvort sem það er í háskólamálum eða annars staðar í landinu.

Ég vil í ljósi þeirra orða sem fallið hafa, sérstaklega eftir að hafa fundið þá væntumþykju í garð Háskóla Íslands sem greinilega hvílir yfir þingheimi, lýsa mig reiðubúna til þess að fram fari stjórnsýslu- og fjárhagsúttekt á málefnum Háskóla Íslands sem hafi það að leiðarljósi að finna leiðir til þess að vinna úr þeim viðfangsefnum sem blasa við Háskóla Íslands. Fyrir slíkri úttekt mun ég beita mér með það í huga að styrkja og efla Háskóla Íslands enn frekar.