Skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:10:53 (3898)

2004-02-05 11:10:53# 130. lþ. 57.91 fundur 292#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:10]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þessa athugasemd í umræðum um störf þingsins, því þetta eru auðvitað störf þingsins. Ég segi með honum að mikilvægast er að fá innihald skýrslunnar, mikilvægast er að fá svör við þeim spurningum sem vakna um hvalveiðarnar og áhrif þeirra á ímynd landsins sem ferðamannalands. Það skiptir minna máli hversu lengi er að verið, innan þeirra marka þó að það er ákaflega brýnt að svör við þessu liggi fyrir áður en tekin er ákvörðun um framhald málsins. Ég sakna þess, þó ég ætli ekki að sakast um það, að hæstv. sjútvrh. skuli ekki vera hér til að hlýða á það, en við skulum koma þeim boðum til hans seinna.

Þessi vinna ætti í raun og veru þegar að fara fram og hefði átt að vera hluti af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja hvalveiðar á sínum tíma. Um fjármál og vinnu í kringum þetta má minna á að frá 1999 hefur verið liður á fjárlögum, a.m.k. hófst hann 1999 og er enn 2004, sem heitir því kynduga nafni ,,Kynning erlendis á nýtingu á auðlindum hafsins``. Hann er nú 25 millj. kr. eða 26 millj. kr. á þessu ári og hefur fjárveitingin samtals numið 133 millj. kr. á árunum 1999--2004 og mun vera áróðursdeildin í hvalveiðimálunum. Ekki hefur okkur skort fé til þess að halda uppi þessari kynningu þó lítt hafi gengið. Ég tel að samgrn. skuldi ferðaþjónustunni að hafa uppi aðra kynningu, að kynna sér hvaða áhrif þetta hvalveiðimál allt hefur haft á ferðaþjónustuna og hvaða áhrif það kynni að hafa á framtíð þeirrar mikilvægu atvinnugreinar.