Skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:15:17 (3900)

2004-02-05 11:15:17# 130. lþ. 57.91 fundur 292#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:15]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hæstv. samgrh. skuli koma og segja frá því að það gangi ekki nógu hratt að klára skýrsluna. En það er dálítið furðulegt eftir að menn hafa verið í mörg ár að undirbúa hvalveiðar og lagt í það gífurlegu vinnu sem hefur verið lýst í sölum Alþingis hvað eftir annað, að það þurfi nú að vanda sig við þetta allt saman, að þá skuli menn ekki vera komnir lengra en svo að þeir séu ekki með málin á hreinu núna. Auðvitað þyrfti að liggja fyrir núna hvort það á að fara að veiða hval í vor.

Það virðist ganga hægt hjá fleirum en hæstv. samgrh. Ég lagði fram fyrirspurn 6. desember um hrefnuveiðar, afurðirnar, hvað væri búið að selja mikið, hvað væri búið að éta mikið. Hæstv. sjútvrh. virðist endilega vilja bíða eftir því hvað menn éta mikið á þorranum til þess að þetta verði nú nákvæmara. (Gripið fram í.) Mér finnst þetta svolítið skrýtið, en þetta er eina skýringin sem ég finn og auðvitað kemur það í ljós.

Ég held að það sé kominn tími til að þeir félagar bretti svolítið upp ermarnar og komist að niðurstöðu nógu snemma til þess að veiðar hefjist á einhverjum skynsamlegum tíma ef þær eiga á annað borð að hefjast, alla vega að stefnan verði svolítið klárari en hún hefur verið.