Skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:18:57 (3902)

2004-02-05 11:18:57# 130. lþ. 57.91 fundur 292#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:18]

Mörður Árnason:

Forseti. Auðvitað á skýrslan að snúast um áhrifin af þeim hvalveiðum sem fóru fram á síðasta ári. Það var þó ekki svo þröngur skilningur lagður í málið af hálfu þeirra sem um skýrsluna báðu, heldur er auðvitað verið að óska eftir afstöðu þeirra sem gerst þekkja til og svo auðvitað ferðamannanna sjálfra, eftir því sem hægt er að ná í þá, til þeirrar ímyndar sem slíkar hvalveiðar gefa Íslandi sem ferðamannalandi.

Ég reyndar fagna því að hæstv. samgrh. skilur --- það kom fram í orðum hans áðan --- áhyggjur ferðaþjónustunnar sem satt að segja eru æpandi þegar hlustað er á þá sem þar hafa forustu, af einmitt þessum efnum.

Ég get nefnt það að við fórum nokkrir þingmenn, eins og vandi er til að þingmenn geri á haustin, til New York til að sitja þar Sameinuðuþjóðaþing og ræddum auðvitað við forustumenn í ferðaþjónustu þar á slóðum um íslenska ferðaþjónustu. Það var samdóma álit þeirra að hér væru ákaflega varhugaverð tíðindi á ferð.

Ég vil ítreka það að biðja hæstv. samgrh. að segja félaga sínum, hæstv. sjútvrh., frá þessari umræðu og ítreka þann vilja sem komið hefur fram í stólnum, að ekki verði tekin ákvörðun um frekari vísindaveiðar á hval fyrr en fyrir liggur hversu háttar til um efni þess máls sem skýrsla sú á að fjalla um sem hér er til umræðu.