Skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 11:24:56 (3905)

2004-02-05 11:24:56# 130. lþ. 57.91 fundur 292#B skýrsla um áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 130. lþ.

[11:24]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera grein fyrir þeirri töf sem hugsanlega getur orðið á skýrsluvinnu samkvæmt beiðni hv. þm. Marðar Árnasonar, þó að það kæmi mér á óvart miðað við þær fullyrðingar sem voru uppi þegar hvalveiðar voru leyfðar í vísindaskyni á sínum tíma, um að þær hefðu engin áhrif á ferðaþjónustuna. Ég satt að segja, eins og margir aðrir, hélt að þær fullyrðingar væru byggðar á einhverjum vísindalegum úttektum á vegum ráðuneytis.

Hins vegar finnast mér vinnubrögð hæstv. ráðherra, að koma hér og gera grein fyrir stöðu mála, vera til fyrirmyndar um leið og ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að stjórnsýslan ætli að fara í þessa vinnu, því að mér sýnist það fyrst og fremst hans verk að í vinnuna verði farið.

Ég kem hér einnig til að taka undir það með hv. þm. og formanni þingflokks Sjálfstfl. að við þurfum að leggjast í vinnu við að skoða bæði þann fjölda fyrirspurna, munnlegra og skriflegra, sem er lagður fram og fjölda skýrslubeiðna, einfaldlega vegna þess að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni, sérstaklega, hafa orðið ekki aðra leið til að koma sínum málum á framfæri. Hér liggja þáltill. og frv. sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram, jafnvel allan veturinn, án þess að þeim sé á nokkurn hátt sinnt eða þær komist á dagskrá. Þess vegna er sú leið farin að fjölga fyrirspurnum og fjölga skýrslubeiðnum. Við þurfum að setjast niður og ræða þessi vinnubrögð almennt.