Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 21:51:28 (3915)

2004-02-05 21:51:28# 130. lþ. 58.1 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 130. lþ.

[21:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Sá vandi sem Alþingi hefur verið að glíma við þessa dagana, reyndar um nokkurt skeið, og varðar sparisjóðina í landinu á rót að rekja til lagabreytinga annars vegar á árinu 2001 og hins vegar á árinu 2002. Í fyrra tilvikinu var um að ræða heimild til að breyta sparisjóðum í hlutafélög. Í síðara tilvikinu var um það að ræða að reistar skyldu girðingar sem kæmu í veg fyrir að stofnfjárhlutir yrðu seldir á yfirverði.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs varaði við þessum lagabreytingum. Annars vegar töldum við girðingarnar ekki nægilega traustar, ekki nægilega háar, ekki þjóna þeim tilgangi sem að var stefnt og hins vegar töldum við mjög óráðlegt að opna fyrir hlutafélagavæðingu sparisjóðanna.

Sjónarmið okkar fengu ekki hljómgrunn á þessum tíma en vankantar á löggjöfinni voru þó komnir í ljós haustið 2002 þegar við fluttum lagafrumvarp sem gerði ráð fyrir tvennu. Annars vegar að afdráttarlaust skyldi kveðið á um að óheimilt væri að selja stofnfjárhluti öðruvísi en á uppfærðu nafnverði og hins vegar að numin skyldu brott úr lögum heimildar\-ákvæði um að breyta sparisjóðum í hlutafélög. Varnaðarorð okkar höfðu reynst eiga við rök að styðjast og margir urðu til að viðurkenna það þótt ekki fengist frv. okkar samþykkt á þeim tíma.

Við vildum allan tímann standa dyggan vörð um hag stofnfjárhafa í sparisjóðunum. Þeirra hagur er reyndar mjög tryggur. Það er ekki þekkt dæmi þess að þeir hafi tapað fé sínu. Eina dæmið sem kunnugt mun vera um er frá kreppuárinu 1929 þegar Sparisjóðurinn Gullfoss varð gjaldþrota. Arðsemi af stofnfjárhlut hefur yfirleitt verið góð. Hún hefur verið þetta á bilinu 10%--18%. Við þessu ætluðum við ekki að hrófla. Við ætluðum hins vegar að koma í veg fyrir að stofnfjáreigendur færu að ráðskast með fé sem væri ekki þeirra. Og það er alveg rétt sem bent hefur verið á af talsmönnum margra sparisjóða að sú hætta væri fyrir hendi ef þessi rúlletta væri sett í gang, þetta dómínóspil.

Ég get nefnt t.d. einn sparisjóð þar sem eigið fé nemur 4,2 milljörðum kr. en stofnféð 35 milljónum. Það yrði að sjálfsögðu mikil freisting fyrir stofnfjárhafa að ráðskast með það fé og hagnast sjálfir á kostnað sjóðsins. Það er þetta sem við viljum koma í veg fyrir að gerist.

Við höfum velt því fyrir okkur hvernig standi á því að þessar breytingar sem við vildum gera á lögunum fengu ekki meira fylgi á Alþingi en raun ber vitni. Þá skal stjórnarflokkunum virt það til vorkunnar að beiðni hafði komið frá sparisjóðunum um að opna á þessa heimild. Sú beiðni hafði komið fram á árinu 2001. Nú hefur það hins vegar verið upplýst í umræðunni í efh.- og viðskn. þingsins að þessi beiðni á rót að rekja til þrýstings frá aðeins einum sparisjóði, þ.e. Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Hinir sparisjóðirnir í landinu voru aldeilis ekki á þessu máli og þegar gengið var eftir því við þá í dag eða fulltrúa Sambands ísl. sparisjóða sögðu þeir að það væri eindreginn vilji stjórnar sparisjóðanna í landinu að nema þetta ákvæði brott úr lögum. Þetta er upplegg sem við höfum rætt í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs síðustu vikurnar.

Niðurstaða okkar varð hins vegar sú að við skyldum halda okkur til hlés með ýtrustu kröfur okkar með það eitt að leiðarljósi að ná almennri þverpólitískri sátt um þetta mál. Öll okkar vinna og öll okkar viðleitni hefur gengið út á þetta og þetta eitt. Nú hefur þessi þverpólitíska sátt náðst í efh.- og viðskn. Þar hafa menn úr öllum flokkum á Alþingi sameinast um niðurstöðu sem hér liggur fyrir.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vill hins vegar gera umtalsverðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og ég boða hér með frumvarp þar sem tekið verður á ýmsum þáttum þessara laga. En á þessu stigi munum við einskorða stuðning okkar við þá niðurstöðu sem náðist í efh.- og viðskn. í dag. Við munum sitja hjá við aðrar tillögur sem fram hafa komið eða fram kunna að koma varðandi þessa niðurstöðu. Við munum styðja hana eina.

Við teljum tvennt þar í húfi. Það varð samkomulag um vinnulag í nefndinni og við ætlum að virða það. Einnig er á hitt að líta að þegar breytingartillögur koma fram á þessum lögum þarf að sjálfsögðu að ræða þær gaumgæfilega í nefndinni jafnvel þótt menn séu sammála um þær í grundvallaratriðum.