Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 22:07:54 (3918)

2004-02-05 22:07:54# 130. lþ. 58.1 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 130. lþ.

[22:07]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum fyrir stuðninginn við þetta frv. Ég þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir mikla vinnu við frumvarpið í dag. Ég lýsi stuðningi við þær brtt. sem koma frá nefndinni. Ég vil einnig þakka fyrir þessa umræðu.

Ég vil segja nokkur orð í tilefni af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan. Hann hafði það eftir forsvarsmönnum sparisjóðanna að þeir hafi í raun ekki kært sig um þá löggjöf sem samþykkt var árið 2001 þegar heimilt var að breyta sparisjóðum í hlutafélög. Ég er mjög óánægð með að heyra það. Samband íslenskra sparisjóða studdi þessa löggjöf og stóð saman að því að sú heimild yrði sett í lög að sparisjóðum yrði breytt í hlutafélög. Þannig er ekki hægt að segja að því hafi verið þvingað upp á sparisjóðina.

Ég lýsi óánægju með það ef öðru er haldið fram af hálfu sparisjóðanna nú. Þeir gerðu ekki athugasemdir við þessa breytingu og studdu hana raunar.

Sparisjóðirnir sem slíkir eru sérstakar stofnanir og það er eðlilegt. Þeir urðu til á þeim tíma þegar ekki var til fjármagn í landinu, fyrir hátt í einni og hálfri öld síðan. Það má að mörgu leyti líkja þeim við kaupfélögin. Kaupfélögin hafa því miður verið að tapa tölunni dálítið, því miður vil ég segja. Við breyttum lögum um samvinnufélög á hv. Alþingi fyrir allmörgum árum, líklega um 15 árum. Kaupfélögum var gert mögulegt að breyta rekstrarforminu í hlutafélagaform. Það varð ekki til að bjarga þeim. Ég geri mér fulla grein fyrir því að sparisjóðunum verður ekki bjargað með löggjöf. Auðvitað fer það fyrst og fremst eftir vilja þeirra til að berjast áfram og hæfni þeirra til þess að taka þátt í samkeppni á fjármálamarkaði, sem eflaust mun fara harðnandi á næstu missirum.

Ég trúi og vona að sparisjóðirnir séu tilbúnir að berjast í þeirri baráttu sem fram undan er. Hún mun harðna. Sparisjóðir eru gríðarlega mikilvægar stofnanir víða um land, sérstaklega í dreifbýlinu. Þess vegna er mikilvægt að þetta fjórða afl verði áfram til en það verður ekki nema forsvarsmönnum sparisjóðanna takist vel til. Það ætla ég rétt að vona að verði.

Ég held að í sjálfu sér sé ekki fleiru við þetta að bæta að sinni. Ég endurtek þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir stuðning við frv. Hvort við stöndum frammi fyrir því aftur áður en langt um líður að taka upp þessa löggjöf ætla ég ekki að hafa orð um nú en að sjálfsögðu vonast ég til, eins og síðasti hv. ræðumaður, að þessi löggjöf verði bæði sparisjóðunum og okkar fjármálaumhverfi til framdráttar og verði til að samkeppni minnki ekki á markaði. Það er mikilvægt að hún sé til staðar.

En það er þannig með allt sem við erum að fást við á hv. Alþingi að það er aldrei hægt að fullyrða nákvæmlega um framhaldið og hversu lengi lögin standa óbreytt. En hvað varðar vinnu hv. efh.- og viðskn. við þetta frv. þá sýnast mér þær breytingar til bóta sem fram eru komnar. Ég vonast til að málið geti orðið að lögum á þessum sólarhring.