Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 05. febrúar 2004, kl. 22:30:40 (3928)

2004-02-05 22:30:40# 130. lþ. 59.1 fundur 550. mál: #A fjármálafyrirtæki# (stofnfjárhlutur í sparisjóði, stjórn sjálfseignarstofnunar o.fl.) frv. 4/2004, Frsm. minni hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 130. lþ.

[22:30]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á langar ræður. Ég er ekki hrifinn af því ofbeldi sem stundum tíðkast, að tefja mál með langlokum. Hins vegar bendi ég á að hið ótrúlega er að gerast að Alþingi er að setja lög gegn einum ákveðnum samningi. Það er alveg á hreinu miðað við það sem kom fram áðan að Alþingi telur nauðsynlegt að flýta þessu frv. þvílíkt að klukkan hálfellefu að kvöldi er verið að hefja 3. umr. með afbrigðum. Málið var lagt fram í gær. Þvílíkur er hraðinn. Það er sem sagt greinilegt að þessu frv. er stefnt gegn ákveðnum samningi sem gerður hefur verið í samræmi við lög og það er með ólíkindum, herra forseti, að slíkt skuli vera að gerast.

Það er grundvallaratriði í réttarríkinu að fólk geti gert samninga í samræmi við gildandi lög án þess að eiga á hættu að löggjafinn komi þar inn ef honum líkar ekki niðurstaðan, taki að sér hlutverk dómsvalds og brjóti þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég vara eindregið við þessu. Og ég ætla að vona að hv. þingmenn lendi ekki í þeirri stöðu einhvern tímann seinna á lífsleiðinni að löggjafinn eyðileggi fyrir þeim það sem þeir töldu gert í samræmi við lög og geri það refsivert eftir að þeir hafa gert eitthvað sem þeir töldu að væri í samræmi við lög. Það gæti nefnilega gerst. Réttaróvissan er algjör þegar Alþingi hegðar sér svona.